Ný skýrsla mennta- og barnamálaráðuneytisins um tilllögur að úrbótum á stöðu drengja í menntakerfinu leit dagsins ljós í dag og niðurstöðurnar eru vægast sagt sláandi, þó að þær ítreki í mörgu niðurstöður síðustu PISA mælingarinnar.
Um 47% drengja getur ekki lesið sér til gagns, við útskrift úr 10. bekk, eins og áður hefur komið fram í PISA og um þriðjungur „nær ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum“. Þá segir einnig í skýrslunni að aðeins þriðjungur nýnema í háskóla séu drengir og innritunarhlutfall þeirra sé það lægsta í öllum ríkjum OECD.
Brottfall íslenskra drengja úr framhaldsskólum er einnig með því mesta í allri Evrópu. Þá kemur einnig fram að drengir á framhaldsskólastigi séu þrefalt líklegri en stúlkur til að fá einkunnir lægri en 6,5.
Það er einnig athyglisvert að bág staða drengja er ekki það eina svarta við stöðuna, því ekki standa stúlkur almennt vel heldur. Meðaleinkunnir drengja í íslensku árið 2015, í 4., 7. og 10. bekk voru fyrir neðan 29 af hundraði og fóru lækkandi ofar í bekkjatali. Meðal einkunnir stúlkna fóru vaxandi með bekkjatali og það er vissulega markverður munur á kynjunum, en engu að síður voru einkunnirnar um og yfir 32 stig af hundraði.
Þá er það einnig vert að taka fram að á meðan að 47% drengja á við ólæsi að stríða þá er hlutfallið 32% hjá stúlkum. Vissulega skárra, en það hlýtur að teljast ansi slæm staða líka.
Vinna við skýrsluna hófst árið 2022 og skilar nú loks niðurstöðum sínum þar sem lagðar eru til 8 lausnir í 27 liðum af aðgerðum, sem eiga að ráðast á vandann.
Skýrslan var að mestu unnin upp úr 112 viðtölum við lykilaðila; kennara, sérfræðinga, foreldra og fleiri, sem miðla áttu af reynslu sinni og þekkingu.
Meðal helstu tillagna skýrslunnar er að auka fjölbreytileika námsefnisins til að mæta ólíkum þörfum einstaklinga, „efla málþroska“ og „styrkja kennarastéttina“ með því að „fjölga karlkyns fyrirmyndum í kennslu“.
Skoða má tillögurnar átta úr skýrslunni hér:
1. Viðurkennum mikilvægi tilgangs, virkni og árangurs hvers barns í menntun sinni og mótum mælikvarða til gæðaviðmiðunar.
2. Eflum framleiðslu og aðgang að fjölbreyttara námsefni.
3. Styrkjum kennarastéttina.
4. Eflum málþroska, málskilning og innri áhugahvöt til lesturs á öllum stigum.
5. Eflum hreyfingu sem skipulagðari hluta af skóladeginum.
6. Hjálpum foreldrum með skýr markmið, þjálfun og verkfæri svo þeir geti veitt betri stuðning við nám og velferð barna sinna og
tekið aukna ábyrgð.
7. Styðjum einstaka sveitarfélög og skóla til að sækja fram og koma með sínar lausnir.
8. Styðjum verkefni sem gefið hafa góða raun og/eða sýna mælanlegan árangur.
Það má velta vöngum yfir því hvernig þessar almennt orðuðu lausnir, sem hljóma raunar allar eins og grundvallaratriði skólakerfis, muni koma til með að bæta ástandið. Að einhverju leyti hefði mátt halda að slík atriði eins og að „efla málþroska“ og „innri áhugahvöt til lesturs“, sem og að hjálpa foreldrum, hefðu öll átt að vera nú þegar til staðar í menntakerfinu.
Hvort að of lítið fjármagn í menntakerfið árum saman, láglaunastefna fyrir kennara og vaxandi álag og þrýstingur á foreldra í sínum störfum og kjörum á stökkbreyttum fasteigna- og leigumarkaði, gæti allt haft einhver áhrif á árangur barna í íslensku menntakerfi er ósagt látið í skýrslunni.
Það er alveg ljóst að árangur drengja er mun síðri en stúlkna og vel má vera að þeir séu viðkvæmari fyrir vanköntum kerfisins, en það verður ekki hunsað að námsárangur stúlkna er einnig slæmur, með rúmlega þriðjung stúlkna í 10. bekk að glíma við skerta lestursgetu. Það virðist því benda til að einhver hluti vandans snýr ekki að kynjunum, heldur að kerfinu sem hefur mistekist að mennta börnin okkar.