Hvað stendur í vegi fyrir að hægt sé að taka Strætó á Leifstöð? Sú spurning hefur ítrekað verið spurð síðustu ár, en aldrei fæst skilmerkilegt svar, þrátt fyrir að fjöldi frétta hafa verið skrifaðar um það á mörgum fjölmiðlum. Jafnvel þó Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hafi lagt fram fyrirspurn í fyrra, þá þessar spurningu aldrei verið svarað almennilega opinberlega. Þó er kyrfilega ljóst að málið strandar á ríkisfyrirtækinu Isavia.
Í dag fjölluðu erlendir fjölmiðlar um það að ferðakona hérlandi hafi ákveðið að labba til Leifstöðvar, frekar en að borga okurverð fyrir rútuferð. Þriðji valmöguleikinn var svo einfaldlgea rán um hábjartan dag, að taka leigubíl. Þetta hefur mörgum þótt vandræðlegt fyrir þjóðina. Einn þeirra er Björn Teitsson samgöngusérfræðingur en hann skrifar:
„Jebb. Þetta er komið í erlenda miðla. Þetta er viral. Og erlendir ferðamenn sjá að það er verið viljandi að hafa þá að fíflum. Og hætta að koma. Þetta er svo niðurlægjandi f okkur sem þjóð. Hvenær ætla stjórnmálamenn að breyta þessu og færa okkur boðlegar almenningssamgöngur milli KEF og RVK. Og nei, er ekki endilega að taka um lest. Það væri hægt að laga strætó strax.“
Hann segir ástæðuna vera augljósa öllum með augu. Í raun sé þetta eitt augljósasta spillingarmál á Íslandi, að ríkisfyrirtækið Isavia sé vísvitandi að draga fætur eða einfaldlega koma í veg fyrir að Strætó gangi í Leifsstöð, svo einkafyrirtæki, svo sem Kynnisferðir haldi áfram að hafa í raun einokunarstöðu á samgöngum til og frá Leifstöð. Kynnisferðir eru að talsverðum hluta í eigu ættingja Bjarna Benediktssonar, Engeyinganna.
Um þetta hefur Björn að segja: „Ekki að einu kostirnir séu einokunarfyrirtæki sem selur miða aðra leið á 4.000 (dýrasta gjald Evrópu) f rútu sem gengur ekki einu sinni eftir timatöflu heldur eingöngu þegar búið er að pakka fólki eins og sardínum í ömurlega rútu, rándýr leigubíll eða bilaleigubíll. Þetta er hvergi svona nema á Íslandi. Þetta er skömm og verður að breytast. Fjölmiðlar, vaknið. Þetta er eitt ruglaðasta mál sem um getur á Íslandi. Og ISAVIA er btw ríkisrekið fyrirtæki, og ríkið er m loftslagsstefnu og samgöngustefnu. Þar sem segir skýrum orðum að stefna eigi að orkuskiptum og auknum hlut fjölbreyttra ferðamáta. Hvernig stuðlar það að fjölbreyttum ferðamáta og orkuskiptum að neyða ferðamenn í 35.000 bílaleigubíla sem bætast við daglega umferð á hverjum degi?“