Íbúðaruppbygging dregst saman samkvæmt nýjum tölum Hagstofu sem Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun birtir í dag. Umsvif á byggingamarkaði aukast samt og fjárfestingar í mannvirkjum atvinnuvega jukust um 20%.
Það þarf vart að minnast á þá gríðarlegu húsnæðiskreppu sem ríkir um þessar mundir, en í ljósi þess hlýtur það að teljast gríðarlega alvarlegt að minnkun mælist á framboði inn í þann skortsmarkað.
Í tölum HMS kemur einnig fram að aðeins þriðjungur fjárfestinga á byggingamarkaði á síðasta ári hafi farið til íbúðauppbyggingar.
Yfirvöld á vegum ríkis og sveitarfélaga hafa gjarnan sett fram viðmið og markmið um íbúðauppbyggingu en þau áform hafa byggst á því að búa til hvata og hvatningu til markaðsafla en aldrei snúist um það að byggja íbúðir af hálfu hins opinbera. Stofnframlög eru aukin, segja yfirvöld, en þau ganga í raun beint í vasa byggingaverktaka sem sjá síðan um að byggja íbúðir sjálfir.
Vandinn er hins vegar sá að ef að einkaaðilar bjóða betur í þjónustu verktaka þá er ljóst að þeir munu flakka frekar í slík verkefni. Þessar tölur HMS sýna það skýrt með samdrætti í íbúðauppbyggingu, en mikilli aukningu í byggingu „mannvirkja atvinnuvega“.
Það torskilda orðalag þýðir einfaldlega byggingar fyrir fyrirtæki. Sjá má merki um það víða um borgina, til að mynda grunna sem lagðir hafa verið að ýmsum nýjum hótelum víða um borg. Stór hótel munu þannig brátt verða reist í kringum Hlemm og annað á Laugavegi ofan Hlemms, við Holtin á reiti gamla sjónvarpshússins.
Húsnæðisstefna yfirvalda, Framsóknarflokksins fyrst og fremst sem hefur haft stjórn á málaflokknum síðustu 7 árin, hefur augljóslega beðið skipbrot. Að hvetja markaðinn til dáða á tímum mikils skorts er einfaldlega ekki nóg.