Sjálfstæðisflokkurinn endurskrifar söguna – nú orðinn frumkvöðull umhverfisverndar á Íslandi

Ekki nóg með það að Sjálfstæðisflokkurinn segist standa fyrir félagslegt réttlæti, þá þykist flokkurinn núna einnig vera fánaberi umhverfisverndar á Íslandi.

Samstöðin fjallaði um furðulega staðhæfingu Bjarna Benediktssonar, síðastaliðna helgi, í þætti Stefán Einars Stefánssonar, Spursmál, á vefsíðu MBL. Þar sagði Bjarni að Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyr­ir „fé­lags­legu rétt­læti og friði“.

Það þarf kannski vart að útskýra það frekar hversu fáránleg þau orð Bjarna eru, í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er númer eitt, tvö og þrjú málsvari auðvaldsins. Einnig eru það Sjálfstæðismenn sem ganga hvað harðast fyrir þeirri stefnu að Ísland beiti sér fyrir vopnakaupum til handa Úkraínu, sem er svo sannarlega ekki friðarstefnu, né samræmist það íslenskri hefð fyrir her- og vopnaleysi. Sú ákvörðun flokksins hefur sætt mikilli gagnrýni, ekki síst frá Höllu Tómasdóttur, tilvonandi forseta.

Flokkurinn heldur áfram þessari undarlegu vegferð sinni í að endurskrifa söguna, en í nýjasta þætti hlaðvarps Sjálfstæðisflokksins er flokkurinn málaður upp sem einhvers konar frumkvöðull umhverfisverndar á Íslandi. Sami flokkur og vill nú óspart virkja meira af náttúruperlum Íslands.

Hvort sé hjákátlegra skal ósagt látið, að sveipa sig skikkju umhverfisverndar eða það að Sjálfstæðisflokkurinn reki sitt eigið hlaðvarp, því að sjálfsögðu er flokkurinn með hlaðvarp, hvað annað á þessum síðustu og verstu?

Engu að síður rekur flokkurinn ámátlegan áróður í því hlaðvarpi og gestur nýjasta þáttarins var Sigríður Anna Þórðardóttir sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2007, formaður þingflokksins um skeið og umhverfisráðherra frá 2004-2006.

Sigríður fer vítt og breitt um feril sinn fyrir flokkinn en minnist með sérstakri hlýju tímans úr umhverfismálunum. „Mér fannst það alveg stórkostlegt tækifæri.“

Hún segist aldrei hafa skilið gagnrýni á sínum tíma að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að hafa yfirumsjón með þeim málaflokki. „Mér fannst þessi umræða alveg gersamlega út í hött vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði alltaf sinnt þessum málaflokki mjög vel. Við áttum fólk í Sjálfstæðisflokknum sem hélt sérstaklega fram náttúruvernd og umhverfismálum.“

Einnig segir Sigríður að Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt „frumkvæði að því að skipa umhverfismálunum sess í stjórnskipan landsins“ í tíð Geirs Hallgrímssonar frá 1975. „Sjálfstæðisflokkurinn hélt því alltaf vakandi, flutti frumvörp og talaði fyrir málunum í þinginu.“

Umhverfisráðuneytið varð þó ekki til fyrr en árið 1990 í tíð stjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokksins.

Þær stöllur, Siv og Sigríður, umhverfisráðherrar Kárahnjúkavirkjunar

Einnig er þess vert að geta að það var í tíð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem sátu frá 1991 til ársins 2007, að gríðarstór umhverfisslys eins og Kárahnjúkavirkjun voru gerð að veruleika. Þannig var það umhverfisráðherra Framsóknarflokks frá 1999 til 2003, Siv Friðleifsdóttir og umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins frá 2004-2006, hún Sigríður, sem sáu um þá framkvæmd.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí