María Rut Kristinsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, gantaðist með það í pontu á Alþingi í dag að fáir þingflokkar væru eins edrú og Viðreisn.
Ummæli hennar féllu þegar rætt var um forvarnir og lýðheilsu á þinginu. Þótt Viðreisn trúi að almenningur eigi að hafa mest um eigin örlög að segja hvað varðar áfengi fremur en ríkið, tók María Rut fram að þingflokkur Viðreisnar legði ekki upp úr frelsi í þeim efnum í eiginhagsmunaskyni. Þvert á móti væri þingflokkur Viðreisnar að mestu skipaður góðtemplurum. Væru fáir þingflokkar eins edrú og Viðreisn.
Tómas Tómasson, Flokki fólksins, sagði í umræðunni staðreynd að 15-20 prósent Íslendinga sem hæfu neyslu áfengis yrðu fíklar. Með auknu aðgengi myndi síga á ógæfuhliðina. Lögbrot væru framin fyrir opnum tjöldum.
Margir þingmenn bentu á að áfengi væri ekki nein venjuleg verslunarvara. Dygði því ekki að fjalla um áfengi eins og aðrar neysluvörur og var hart sótt að netsölu.