Hryllingur laxeldisins heldur áfram. Fyrstu fimm mánuði ársins drápust nærri því tvær milljónir laxa í sjókvíunum, í samanburði við 1,3 milljón á sama tímabili síðasta árs.
Jakob Bjarnar hjá Vísi flutti fréttina fyrst í gær, en þar segir hann afföllin, eins og það er kallað, jafnast á við 100-faldan hrygningarstofn villta laxins á Íslandi.
Finna má tölurnar og gröfin á mælaborði MAST um fiskeldi.
Þessar fregnir koma á hæla þess að frumvarp matvælaráðherra um lagareldi rakst á vegg í þinginu og verður seinkað til næsta þings í haust. Í því frumvarpi voru vissulega hertar reglur og reglugerðir, sem og aukin skattheimta og gjaldheimta af fiskeldisfyrirtækjunum, en að sama skapi varð eitt ákvæðið í frumvarpinu gríðarlega umdeilt sem gefa átti fyrirtækjunum ótímabundið leyfi til framleiðslu sinnir í fjörðum landsins.
Mikið af þeirri umræðu hefur beinst að sjókvíum, en einhverra hluta vegna sniðið framhjá landeldisfyrirtækjum, sem viðhafa nákvæmlega sömu viðskipta- og framleiðsluhætti, bara í byggðum kvíum á landi frekar en úti í fjörðunum. Samstöðin fjallaði um það hvernig áætlanir í landeldi munu krefjast meiri notkunar ferskvatns en gervallt Ísland notar í dag. Það er því ekki síður áhyggjuefni fyrir náttúruna og auðlindir landsins.
Hitt er, sem eru fregnirnar um afföllin.
Afföllin skapast af margvíslegum ástæðum, en ekki síst þess sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarin misseri um áhrif laxalúsar og ýmissa bakteríusjúkdóma sem plaga laxana, vegna þess að þeir eru fastir í lokuðum kvíum í ónáttúrulegri nálægð hver við annan. Þær kringumstæður eru þær sömu í landeldinu.
Það sem þessar nýju tölur um afföllin segja okkur þó skýrt er að aðstæður í fiskeldi á Íslandi hafa ekki batnað samhliða mikilli gagnrýni og fjölmiðlaumfjöllun, heldur þvert á móti versnað. Efast má stórlega um getu og vilja ráðandi ríkisstjórnar til þess að koma iðnaðinum í horf sem sæmir almennum viðmiðum um dýravelferð, enda strandaði frumvarpið ekki á ákvæði um leyfisveitingu eða of ströngum eða frjálslegum reglugerðum, heldur strandaði það á andstöðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks við of mikilli skattheimtu á fyrirtækin.
Fyrir einhverjum árum varð brúneggjamálið til ákveðinnar vitundarvakningar á Íslandi um meðferð á hænum, enda eru lausagönguhænur og egg þeirra vinsæll kostur margra neytenda í dag. Á einhverjum tímapunkti kemur kannski að því að endurskoðuð verði hugmyndin í sjálfu sér að ala fiska í kvíum með allri þeirri ónáttúru sem því fylgir. Þangað til mokgræða fiskeldisfyrirtækin á meðan að dýrin eru stráfelld í vaxandi mæli af sjúkdómum og sníkjudýrum. Geðslegt.