„Og þar komum við að því að ræða hlutskipti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eins og það blasir við nú. Menn keppast við að segja að fylgið hrynji af VG vegna samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn. Mikið er að sjálfsögðu til í því en það er hins vegar mikil einföldun. Fylgistapið er ekki síður vegna þeirrar stefnu sem Vinstrihreyfingin sjálf hefur fylgt. Ekki tilneydd, heldur að eigin vilja að því er best hefur mátt skilja. Að undanskildum „kynsegin“ málum hefur flokkurinn brugðist í öllum helstu málaflokkum sem hann var stofnaður um.“
Þetta segir Ögmundur Jónsson, einn stofnenda flokksins Vinstri grænna, í nýbirtum pistli. Ögmundur gerir upp hvað sé að valda því að hans gamli flokkur mælist ekki inn á þingi og virðist að mati flestra vera í dauðaslitrunum. Ástæðan fyrir því er í stuttu máli að menn „verða að vera vinstri menn ef þeir segjast vera vinstri menn“, sem er jafnframt fyrirsögnin á pistli Ögmundar. Ögmundur fer yfir það í löngu máli hvernig VG hafi einfaldlega svikið hvert einasta gildi sem flokkurinn var stofanaður í kringum.
„Nánast hvar sem borið er niður fylgdi VG stefnu sem gekk þvert á grunngildi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þar eru dæmin ófá, mikilvægur áfangi í orkustefnu Evrópusambandsins var innleiddur, opnað á einkavæðingu í samgöngukerfinu svo og í heilbrigðiskerfinu (sumt af því fer enn dult vegna umræðuleysis), kvótakerfið styrkt í sessi, nú síðast með tillögum um einkavæðingu fjarðanna í hendur fjárfesta (norskra að uppistöðu til), EES samstarfið lofsungið um efni fram af hálfu VG – ræðurnar á hátíðasamkundum bera því órækt vitni – og leyfður innflutningur á hráu kjöti gegn ráðleggingum helstu sérfræðinga. Og aldrei er NATÓ (sem flokkurinn þykist vera á móti) gagnrýnt, þvert á móti lofsungið og tekið undir með hernaðarhyggju, sem þaðan er runnin, bæði í orði og í verki eins og vopnakaup til manndrápa í Úkraínu eru til marks um. Aldrei var talað fyrir friði og friðsamlegum lausnum heldur þvert á móti studdar tillögur sem vitað var að útiloka friðsamlegar lausnir,“ segir Ögmundur og heldur áfram:
„Þá hefur verið dapurlegt að sjá hvernig umhverfisstefna flokksins hefur smám saman verið að snúast upp í grænan kapítalisma sem ágætlega var útlistaður í norrænum bæklingi sem Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, var falið að ritstýra fyrir Íslands hönd um öryggismál á norðurslóðum. Heimiluð var uppbygging hernaðarmannvirkja fyrir milljarða, aukin var viðvera hermanna og loftrýmiseftirlit stóraukið, árásarflugvélar útbúnar til árása með kjarnorkusprengjur boðnar velkomnar og heræfingar leyfðar á sjó og landi sem aldrei fyrr. Gerður var samningur við Natóvinafélagið Varðberg um að fræða þjóðina um hernaðarbandalagið, stofnuð var staða „varnarmálafulltrúa“ við sendiráðið í Washington til að geta verið í sem nánustum tengslum við Pentagon! Þannig er staðan meðal annars skilgreind.“
En hvað er þá til ráða fyrir vinstrimenn sem geta ekki hugsað sér lengur að kjósa VG? Ögmundur nefnir nokkrar lausnir við því. „Við skulum aldrei gleyma því að þjóðfélagið tekur ekki aðeins breytingum vegna þess sem gerist á Alþingi eða í Stjórnarráðinu, heldur og þá alls ekki síður, reyndar miklu fremur, fyrir tilstilli félagslegra hreyfinga, hræringa á vinnumarkaði og baráttu í þágu jöfnuðar og mannréttinda. Án sívökullar baráttu væri allt dautt undir valtara auðhyggjunnar. Fyrsta viðbragð í vanda er yfirleitt að spyrja hvort þessi eigi ekki að sameinast hinum eða hinn þessum, hvort ekki þurfi að endurstokka skipulagsformin í stjórnmálum. Gæti verið að það sem menn ættu að sameinast um á þessu stigi væri einfaldlega umræðuvettvangurinn, og þá helst með því að efla Samstöðina? Hún hefur verið öllum opin og þá sérstaklega af félagshyggjuvæng stjórnmálanna. Umræðan sem þar hefur átt sér stað hefur án nokkurs vafa verið baráttufólki til uppörvunar og okkur öllum til vitundarvakningar. Þetta þyrfti að ræða í mikilli alvöru.“
Pistill Ögmundar er lengri og hér hefur einungis verið vísað í hluta hans. Pistilinn má lesa í heild sinni hér.