Í nýrri skoðanakönnun Maskínu heldur slæm útreið stjórnarflokkanna áfram. Spurt var ýmislegra spurninga um frammistöðu ríkisstjórnarinnar og flokkanna sem mynda hana. Könnunin var framkvæmd frá 26. júní til 1. júlí 2024 og voru svarendur 1098 talsins.
Aðeins 5% telja ríkisstjórnina hafa gert mikið til að lækka vexti og verðbólgu á Íslandi, en 81% segja hana hafa gert lítið. Þá treysta 72% ríkisstjórninni verr eftir að Bjarni Benediktsson tók við sem forsætisráðherra, en aðeins 11% treysta ríkisstjórninni betur. Langstærstur hluti merkti svar sitt sem „miklu verr“ eða 57,4% svarenda.
Svarendur skiptast í fremur jafna hópa eftir því hvort þeir telji líklegt eða ólíklegt að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið, 37% segja það líklegt, 40% ólíklegt og 23% telja það í meðallagi líklegt.

Aðspurð um það hversu vel eða illa þáttakendum könnunarinnar finnst ríkisstjórnarflokkunum hafa tekist að koma sínum málefnum til framkvæmda, vekur athygli að langflestir telja Sjálfstæðisflokkinn hafa gengið vel að ná sínu fram, eða 27%. 18% telja Framsóknarflokkinn hafa gengið vel í því sama en aðeins 9% segja það um Vinstri græna. 57% sammælast þó um að Vinstri grænum hafi gengið illa að ná sínu fram, á móti 32% fyrir Framsókn og 34% fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Það er því greinilegt að samhljómur um þá skynjun að Vinstri grænum hefur tekist mun verr en hinum flokkunum að koma sínum málum í gegnum ríkisstjórnina. Þá er einnig ljóst að álit langflestra sé að flokkunum þremur hafi gengið annaðhvort illa eða í meðallagi að ná sínu fram. Ríkisstjórnin er því álitin að miklu verklítil.