„Ásgerður Jóna Flosadóttir er hraðlygin eins og fleiri Íslendingar. Hún laug á Fréttablaðið, að það hefði haft rangt eftir sér. Samt hefur Fréttablaðið hljóðupptöku af símtalinu, þar sem einstæður rasismi Ásgerðar Jónu kom skýrt fram.“
Þetta skrifaði Jónas Kristjánsson ritstjóri árið 2010 en líkt og hann vísar í þá var hún gómuð glóðvolg við að ljúga um biðraðir í Fjölskylduhjálpinni. Í ljósi þess að hún laug upp á blaðamenn, þrátt fyrir að orð hennar væru til á upptök, þá mætti ætla að fjölmiðlafólk hefði varan á sér hvað frásagnir hennar varðar.
Frétt sem Vísir birti í gær hefur einmitt verið gagnrýnd harðlega fyrir að lítill sem enginn fyrirvari er gerður við fullyrðingu Ásgerðar Jónu um að nauðsynlegt sé að hafa sérdaga þar sem matargjöfum er úthlutað til Íslendinga. Að hennar sögn því Íslendingar veigri sér „við að fara í röðina vegna hótana og yfirgangs útlendinga“.
Hún hefur verið, líkt og árið 2010, verið gagnrýnd fyrir rasisma. En þá taldi Jónas lygarnar eiginlega vera verri. „Margir hnýta í hana vegna röðunar hennar á þurfandi fólki í Íslendinga og útlendinga. Ég staldra frekar við lygina í henni. Hún lýgur blákalt upp á viðmælandann og fer rangt með staðreyndir um biðraðir í Fjölskylduhjálpinni. Þetta er einmitt helzti galli Íslendinga, sem ég hef neyðst til að glíma við í 50 ár: Margt háttsett fólk hraðlýgur út í eitt eftir meintum þörfum sínum,“ skrifaði Jónas heitinn Kristjánsson.
Þess má geta að Ásgerður Jóna hefur raunar ítrekað verið gómuð við að ljúga að fjölmiðlum. Ríflega tíu árum fyrr, eða árið 2001, var hún formaður Mæðrarstyrksnefndar. Þá var greint frá því að að hún hefði staðið fyrir því að allri nefndinni væri boðið í sólarlandaferð til Portúgal í boði samtakana. Þá bar hún því fyrir sér að það væri viðtekin venja hjá nefndarmönnum að umbuna sjálfum sér með árlegri ferð á hótel innanlands.
Fyrrverandi stjórnarmenn sögðu það einfaldlega lygi.