„Landsfrægur rasisti er einhverra hluta vegna fenginn í viðtal á útvarpsstöð. Segir þar rasískt kjaftæði og elur á fordómum gagnvart fólki í brjálæðislega viðkvæmri stöðu. Fúskari skrifar frétt eins og skoðanir rasistans séu bláköld staðreynd og viti menn, allir háværustu rasistar landsins droppa við í kommentakerfinu og frussa út hræddum og illa upplýstum skoðunum.“
Svo lýsir rithöfundurinn Bragi Páll tilurð fréttar sem birtist á Vísi í morgun. Fréttin fjallar um fullyrðingu Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálpar Íslands, um að nauðsynlegt sé að hafa sérdaga þar sem matargjöfum er úthlutað til Íslendinga. Að hennar sögn því Íslendingar veigri sér „við að fara í röðina vegna hótana og yfirgangs útlendinga“.
Bragi Páll segir fréttina ekkert annað en fúsk með rökum að lítill sem enginn fyrirvari er gerður við fullyrðingu Ásgerðar Jónu. „Mikil er ábyrgð fjölmiðlafólks að ala ekki á fordómum. Mikil er ábyrgð ritstjóra að krefjast vandaðra vinnubragða. Sumt fólk er einfaldlega búið að stimpla sig út sem marktækir viðmælendur. Gefum óttanum ekki sviðið,“ segir Bragi Páll og bætir við:
„Þær fjölskyldur sem þurfa á fjölskylduhjálp að halda eru fórnarlömb kapítalismans. Misskiptingin, græðgin og óheft, sívaxandi stéttaskipting eru vandamálin. Ekki brúnt fólk að flýja stríð. Það er til skítnóg af seðlum en þeir fara í fáa vasa. Restin af ykkur eru launaþrælar. Millarnir eru rótin. Beinið reiði ykkar að þeim sem skapa vandann, ekki að fórnarlömbunum.“