Finnska þingið samþykkti þann 1. júlí síðastliðinn tvíhliða hernaðarsamning við Bandaríkin sem nefnist Defence Cooperation Agreement with the United States (DCA). Samningurinn veitir Bandaríkjunum aðgang að 15 herstöðvum í Finnlandi, þar á meðal landamæragæslustöð í bænum Ivalo sem er aðeins 30 km frá landamærum Rússlands.
Bandaríkin og Finnland höfðu skrifað undir samninginn í desember 2023, í framhaldi af inngöngu Finnlands í NATO fyrr á árinu (í apríl 2023). Þegar Finnland gekk í NATO tvöfölduðust landamæri hernaðarbandalagsins að Rússlandi, en landamæri Finnlands og Rússlands eru 1.340 km löng. Núna hefur finnska þingið fullgilt samninginn.
Svíþjóð hefur jafnframt gert svipaðan hernaðarsamning við Bandaríkin, í desember 2023, sem var einnig samþykktur af sænska þinginu í síðasta mánuði (í júní 2024). Samningurinn veitir Bandaríkjunum aðgang að 17 herstöðvum í Svíþjóð og gerir bandaríska hernum kleift að ferðast frjálst um landið.
Samningurinn mætti andstöðu á sænska þinginu frá Vinstri flokknum og Græningjaflokknum, en 266 þingmenn greiddu atkvæði með samningnum, 37 voru á móti og 46 voru fjarstaddir.
Helsta gagnrýni vinstrimanna og græningja á samninginn var að hann gæti mögulega opnað dyrnar fyrir því að Bandaríkjaher komi fyrir kjarnavopnum á landsvæði Svíþjóðar, eins og Bandaríkin hafa þegar gert í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Ítalíu og Tyrklandi samkvæmt hinni svokölluðu kjarnavopnasamnýtingaráætlun NATO (NATO’s Nuclear Sharing Arrangement).
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafði áður gefið til kynna að Svíþjóð gæti mögulega hýst kjarnavopn á stríðstímum, þrátt fyrir bann sænska þingsins við kjarnavopnum á friðartímum.
Rússar bregðast við
Pútín hafði upphaflega sagt að innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO væri ekki ógn við Rússland, en varaði við því að Rússland myndi bregðast við ef Bandaríkin kæmu fyrir sínu herliði í þessum ríkjum, sem Rússar líta á sem ógn við sína öryggishagsmuni.
Pútín gerði þessa afstöðu skýra í ræðu á fundi Sameiginlegu öryggissáttmálastofnunarinnar (CSTO) þann 16. maí 2022 (en CSTO hernaðarbandalag sex fyrrverandi sovétlýðvelda í Evrasíu: Armeníu, Hvíta-Rússlands, Kasakstan, Kirgistan, Rússlands og Tadsíkistan):
Hvað varðar stækkun NATO, þar með talið aðild tveggja væntanlegra nýrra aðildarríkja, Finnlands og Svíþjóðar, vil ég upplýsa ykkur, kæru samstarfsmenn, að Rússland á ekki í neinum vandamálum við þessi ríki. Alls engum! Í þessum skilningi er því engin bein ógn við Rússland í tengslum við stækkun NATO til þessara landa. En stækkun hernaðarinnviða bandalagsins til þessara svæða mun vissulega kalla fram viðbrögð af okkar hálfu.
Núna þegar Finnland og Svíþjóð hafa fullgilt þessa hernaðarsamninga við Bandaríkin, og leyft þeim að koma með sitt herlið inn á landsvæði þessara ríkja, og veitt Bandaríkjaher afnot af sínum herstöðvum, hafa Rússar sagt að þeir ætli að bregðast við.
Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, Andrei Nastasin, tilkynnti þann 3. júlí síðastliðinn:
Ég get aðeins staðfest að Rússland mun ekki leyfa hernaðaruppbyggingu NATO á landamærum okkar, sem ógnar öryggi Rússneska sambandsríkisins, að ganga fram óáreitt. Við munum gera nauðsynlegar ráðstafanir, þar á meðal hernaðarlegs eðlis og tæknilegs eðlis, til að sporna gegn herskáum ákvörðunum Finnlands og bandamanna þeirra í NATO.
Eftir að Finnland gekk í NATO hefur Rússland aukið hernaðarviðveru sína á landamærum Finnlands, sem hefur leitt til þess spennan á milli ríkjanna og á milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands hefur aukist talsvert. Þá hafa Rússar einnig verið að byggja upp nýjar herstöðvar á landamærum Finnlands.