Bjöguð og undarleg framsetning HMS segir leigjendur njóta „ígildi um 320 þúsund króna launahækkunar“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber fram undarlega framsetningu á leigumálum á vefsíðu sinni og í færslu á Facebook í dag. Þar er því haldið fram að leigjendur sem leigja hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og hljóta húsaleigubætur séu í raun að fá ókeypis launahækkun upp á hundruði þúsunda.

Framsetning þessara talna hefur hlotið mikla gagnrýni frá leigjendum sem ræða um málið í umræðuhópi sínum á Facebook.

Tölur HMS byggja á því að taka fyrir átta þúsund leigusamninga sem „skilgreina má sem niðurgreiddar leiguíbúðir, þar sem þær eru annað hvort fjármagnaðar með stuðningi frá hinu opinbera eða að leiguverð þeirra ákvarðast ekki af markaðsforsendum.“ Þar af eru fimm þúsund samningar á vegum leigufélaga eins og Bjargs, Brynju, Félagsbústöðum og Arnrúnar íbúðafélags. Rúmlega þrjú þúsund af þessum átta eru svo námsmannaíbúðir. Af þeim fengu sex þúsund samningar greiðslur húsaleigubóta.

Fyrir meðaleinstakling á leigumarkaði geti húsnæðisstuðningur og slík niðurgreiðsla leiguverðs verið ígildi „320 þúsund króna launahækkunar … samkvæmt útreikningum HMS.“

Þessi færsla vakti mikla reiði leigjenda, enda staðan á leigumarkaði orðin slík að beint liggur við að kalla það helsi.

Forsendur HMS eru nokkuð hæpnar. Fyrir það fyrsta, eins og einn leigjandi bendir á í gagnrýni sinni á þessa framsetningu, þá er slíkt meðaltal alvarlega útþynnt vegna fjölda námsmannaíbúða, en eðli málsins samkvæmt eru slíkar íbúðir langtum ódýrari en gengur og gerist á leigumarkaði. Það sama gildir um Félagsbústaði. Útreikningar HMS eru svo líka byggðir á því að tekjur viðkomandi einstaklings í þeirra tilbúna dæmi sé 360 þúsund krónur á mánuði, sem skili sér í ráðstöfunartekjum upp á 250 þúsund.

Því er svo lagt að jöfnu við einstakling sem þéni 680 þúsund krónur á mánuði, að ráðstöfunartekjur viðkomandi séu hinar sömu, þar sem sá einstaklingur fái ekki húsnæðisbætur og leigi á markaði.

Það er hins vegar ekki svo, eins og blasir við, að námsmenn séu margir að þéna 360 þúsund krónur. Margir eru á námslánum sem eru langtum lægri, eða rétt skrimta í hlutavinnu meðfram námi og þurfa því réttilega á mjög niðurgreiddri leigu og húsaleigubótum að halda. Það liggur í hlutarins eðli.

Fólk sem leigir hjá Félagsbústöðum er einnig oft í þeirri stöðu að búa við sára fátækt. Ef viðkomandi er á örorkubótum þá eru tekjur þeirra 335.128 krónur á mánuði fyrir skatt án heimilisuppbótar, en allt að 421.380 krónur á mánuði fyrir skatt með heimilisuppbót. Ef viðkomandi er á atvinnuleysisbótum þá er upphæðin 349.851 kr. á mánuði fyrir skatt. Ef viðkomandi er svo á félagsbótum, þá er fjárhæðin til að mynda 239.895 krónur á mánuði.

Það er því ljóst að einstaklingar í slíkum aðstæðum passa ekki einu sinni inn í fantasíu Excel-reikning hagfræðinganna hjá HMS. Þar fyrir utan er sá hópur sem HMS vísar í aðeins lítill minnihluti leigjenda og einnig eru afar fáir vinnandi einstaklingar sem njóta félagslegra úrræða, oftar eru þar einstæðir foreldrar eða efnalitlar fjölskyldur, eða þá einmitt einstæðingar sem búa við einhvers konar skerta félagslega stöðu. Þá er ekki talið með allar hinar afleiðingarnar og kostnaður sem fylgir því að vera í slíkri stöðu, bæði fjárhagslega sem og andlega eða líkamlega.

Nú bara í dag bárust nýjar tölur um það að ævilengd verkafólks og tekjulágra er að styttast. Fátæktin drepur bókstaflega.

Þá má líka skoða önnur dæmi um svokallaða „niðurgreidda leigu“, eins og Bjarg sem dæmi. Það eitt að rukka ekki samkvæmt markaðsmiðuðum forsendum er ekki í sjálfu sér niðurgreiðsla. Það eiginlega segir meira um hugarheim hagfræðinganna sem reiknuðu þetta út að þannig skuli þeir sjá heiminn. Að rukka ekki upp í rjáfur er ekki tap eða einhvers konar skerðing eða niðurgreiðsla, það er bara sanngirni.

Bjarg er ekki að rukka lág verð heldur, bara eins lág og leigufélagið ræður við til að vera ekki í tapi. Undirliggjandi kostnaður þar er gífurleg aukning kostnaðar íbúðaverða, lóðaverða og byggingaframkvæmda, sem öll stjórnast aftur af offorsinu á markaði, eins og Ragnar Þór formaður VR hefur ítrekað bent á.

Svo má staldra við líka tilgang þessarar framsetningar HMS. Þar eru tölurnar látnar líta sem svo út að fólk á allra lægstu kjörum og í sárustu fátækt séu í raun að njóta mörg hundruð þúsunda launahækkana. Einnig er með þessu ýjað mjög sterklega að því að ástandið á leigumarkaði sé greinilega ekkert svo slæmt, fátækustu leigjendurnir fá svo mikinn stuðning að þeir hafi það í raun jafngott og fólk á millitekjum.

Þessa dagana er hugtakið gaslýsing títt notað, jafnvel ofnotað, en í svona tilvikum á það kannski best við svona framsetningu. Höfuðskrifræði húsnæðismála bjagar hér gögn og tölur, að því er virðist í þeim tilgangi að mála upp töluvert bjartari mynd af húsnæðiskreppunni og helsi leigumarkaðarins en það sem leigjendur bæði þekkja, skilja og vita á eigin skinni. Leigjendur eiga víst að trúa því þveröfuga, ef marka má þessa framsetningu HMS, öll þeirra þjáning og hark er ekki raunveruleg. Slíkt kallast víst gaslýsing.

Vona má svo að leigusalar, hvort sem er óhagnaðardrifnir eða markaðsaðilar og óprúttnir braskarar noti ekki þessa framsetningu gagnanna sér í hag og til að styðja við frekari hækkanir og okur. Hitt er svo að stjórn HMS skipa fulltrúar ríkisstjórnaflokkanna, með Framsóknarflokki í meirihluta og spyrja má hvort innrömmun og framsetning stofnunarinnar mótist af þeirri pólitísku forystu sem hefur skapað og viðhaldið húsnæðiskreppunni hér á landi í vel rúmlega áratug.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí