Hlægilega innantómur málflutningur Viðskiptaráðs gegn Kennarasambandinu var til umfjöllunar hér á Samstöðinni í gær. Formaður Kennarasambandsins og menntamálaráðherra taka báðir til máls í dag og taka undir gagnrýnina á Viðskiptaráð. „Hjákátlegur“ málflutningur segir Ásmundur Einar Daðason um Viðskiptaráð.
Málið er einfaldlega það að Viðskiptaráð Íslands gaf út umsögn um neyðarástand í menntakerfinu og taldi það liggja í augum uppi að ábyrgðin á því að hafa leitt menntakerfið í „öngstræti“, lægi að mestu hjá kennurum og Kennarasambandinu. Ráði kallaði eftir endurupptöku samræmdra prófa því gagn slíkra mælinga til betrumbóta væru „algild sannindi“. Umsögnin var aum tilraun til að gera kennara að blórabögglum og skauta þannig alfarið framhjá áhrifum þeirrar hægri hagstjórnar sem Viðskiptaráð þjónar sem áróðursherbúðir fyrir.
Hægri efnahagsstjórn hefur holað menntakerfið að innan oftar en einu sinni og áhrif slíkrar hagstjórnar á samfélagið hefur líka stóraukið ójöfnuð og fátækt meðal barna. Enda kemur það skýrt í ljós í tölum PISA að börn efnaminni foreldra standa mun verr. Vandamálið er langt því frá einskorðað við kynjamun, enda ljóst eins og Samstöðin hefur ítrekað bent á, að bæði kynin standa höllum fæti í alþjóðlegum samanburði, þó svo að drengir standi ennþá verr.
Nú taka formaður Kennarasambandsins, Magnús Þór Jónsson og menntamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, við og gagnrýna umsögn Viðskiptaráðs harðlega.
Magnús segir fullyrðingar Viðskiptaráðs um gagn og gildi samræmdra prófa ekki standast skoðun. Samræmd próf sem raunverulegt mælitæki á námshæfni barna sé „tímaskekkja“. Nýjungar og framfarir í menntavísindum hafa fyrir löngu varpað ljósi á það að slík aðferð við mælingar er afar takmörkuð að gagni. Frammistaða barns í prófumhverfi er ekki raunmælikvarði á getu þess eða hæfni.
„Krafan um samræmt miðlægt námsmat er vísun til tíma sem að eru komin tuttugu ár síðan og ég held að það sé enginn sem er að vinna á gólfinu með börnum tilbúinn að horfa til þess að við förum aftur þangað. Við getum ekki stillt fókusinn á einhvern ákveðinn hátt þar sem að eitt próf á að kunna, það er bara liðin tíð,“ sagði Magnús í viðtali við RÚV.
Ásmundur Einar er öllu harðorðari í garð Viðskiptaráðs, en umsögn ráðsins segir hann „óásættanlega“ og „hjákátlega“. Ný stefna um matsferil sé þegar hafin að innleiðingu og er „miklu faglegra og er hugsað sem miklu betra verkfæri til að nýta dag frá degi í skólakerfinu. Vegna þess að gömlu samræmdu prófin voru ekki að nýtast nægilega vel með gagnvirkum hætti og voru þess vegna að einhverju leyti orðin úrelt“, sagði Ásmundur við Vísi.
Þær breytingar hafi verið mótaðar í víðu samráði, ekki bara með Kennarasambandinu. „Vegna þess að það er þannig að allir eiga að hafa aðgengi að því að móta íslenskt menntakerfi. Þar hefur Viðskiptaráð sannarlega haft tækifæri til þess að mæta á opna fundi, ráðstefnur og fleira.“
„Þess vegna er það í raun óásættanlegt að Viðskiptaráð skuli tala um kennara og annað starfsfólk menntakerfisins eins og þeir hafa leyft sér, og ásaka fólk sem hefur tileinkað vinnu sinni í þágu barna að hafa eyðilagt menntakerfið, þá er það í besta falli hjákátlegt.“
Ásmundur Einar hittir þar naglann á höfuðið, enda í fullkomlega furðulegt að Viðskiptaráð ráðist með þessum hætti að kennurum, fagfólkinu sjálfu sem vinnur með börnum. Þá má líka benda aftur á það að Viðskiptaráð hefur ekkert vit á menntavísindum eða stefnu, hvorki formaður þess sem er hagfræðingur og framkvæmdastjóri, né ráðið sjálft þar sem yfirlýstur tilgangur þess er helgaður viðskiptum og einkaframtakinu. Eins og allir vita sem vilja vita það þá er rauntilgangur ráðsins sá að fara fram með áróður fyrir hönd auðvaldsins, enda er þessi árás á hendur kennara hugsuð til þess eins að varpa ábyrgðinni frá hægri efnahagsstjórn.