Viðskiptaráð gerir kennara að blórabögglum – neyðarástand í menntakerfinu þeim að kenna

Það er margt furðulegt til og í gangi á þessu landi okkar allra jafnan, en fátt er undarlegra en fyrirbærið Viðskiptaráð Íslands. Ráðið og nýráðinn formaður þess, Björn Brynjúlfur Björnsson, ráðast nú að kennurum og Kennarasambandinu sem sökudólgum á stöðu menntakerfisins.

Hvers vegna það skal talið furðulegt er vegna þess að Viðskiptaráð hefur ekkert með menntamál að gera. Viðskiptaráð Íslands hefur samkvæmt eigin skilgreiningu það markmið að „vinna að því að efla íslenskt atvinnulíf“. Samkvæmt raunskilgreiningu hefur Viðskiptaráð þann tilgang að þjóna sem áróðurssmiðja auðvaldssinna.

Björn Brynjúlfur tók við formannsstöðu ráðsins í mars á þessu ári af Svanhildi Hólm Valsdóttur, þar sem hún mun taka við embætti sendiherra Íslands í Washington, þeirri frægu frændhyglisskipun Bjarna Benediktssonar. Björn Brynjúlfur er hins vegar ekki fagmenntaður í menntamálum. Hann er hagfræðingur og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækis sem mælir starfsánægju fyrir vinnustaði.

Viðskiptaráð og nýráðinn formaður þess sjá samt ástæðu til þess að gefa út umsögn um áformaðar breytingar menntamálaráðherra á lögum um grunnskóla, en í umsögninni segir að „stefnumörkun Kennarasambandsins hefur leitt íslenskt grunnskólakerfi í öngstræti“ og að yfirvöld ættu því að stöðva afskipti sambandsins af frekari stefnumörkun til framtíðar.

„Það eru algild sannindi að til að bæta hlutina, þá þarf að mæla þá. Ef stjórnvöld eru núna að taka úr sambandi eina samræmda árangursmælikvarðann í íslensku skólakerfi, þá verður árangurinn lakur, eins og raun ber vitni“, sagði Björn Brynjúlfur um ásakanir Viðskiptaráðs.

Þá telur hann einkunnaverðbólgu vera mikla í grunnskólum og leggur Viðskiptaráð til að taka samræmd próf upp að nýju sem skilyrði inngöngu í framhaldsskóla, ásamt því að niðurstöður þeirra verði birtar opinberlega. Stefna stjórnvalda hafi „beðið skipbrot“, sem sé að stóru hluta vegna þess að málaflokkinum hafi verið „úthýst“ til Kennarasambands Íslands.

Fyrir það fyrsta má taka fyrir orð Björns um að það séu „algild sannindi“ að betrumbót þarfnist mælinga. Ef að fólk er svangt þá bætir það ekkert að mæla magamálið á þeim, heldur þarf bara einfaldlega að gefa þeim að borða. Sannindin eru því ekki algild.

Hins vegar er ljóst að mælingar eru til margs gagns. Þannig átti til dæmis að skylda alla leigusamninga til skráningar í leiguskrá í frumvarpi Sigurðar Inga, þáverandi innviðaráðherra, svo hægt væri að fá nákvæmari mynd af leigumarkaðinum. Fallið var frá því ákvæði, eitt afar fárra í frumvarpinu sem raunverulega hafði eitthvað gagn, vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Í umsögnum um frumvarpið sendi Viðskiptaráð eina slíka og mótmælti ýmsu í frumvarpinu í hástert, þar á meðal skráningarskyldu leigusamninga, sem gengi of langt.

Í umsögninni sagði meðal annars: „Viðskiptaráð hefur fullan skilning
á áformum stjórnvalda að afla áreiðanlegra upplýsinga um leigumarkaðinn en telur of
langt gengið og gerir athugasemd við skráningu ríkisins á einkaréttarlegum samningum
sem sjálfsagt og eðlilegt er að trúnaður ríki um.“

Mælingar og skráningar skipta því bara stundum máli að mati Viðskiptaráðs og eru að þeirra eigin mati greinilega ekki „algild sannindi til að bæta hlutina“.

Í málaflokki sem Viðskiptaráð hefur hvorki vit né ábyrgð á, menntamálum, telur ráðið sig samt umkomið til að leggja mat á hverra sök bág staða námshæfni barna er og hvernig best skal fara að til að lagfæra það ástand.

Stjórnarformaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum og stjórnarmeðlimur Kennarasambandsins, Anton Már Gylfason, segir álit Viðskiptaráðs byggja á úreltum hugmyndum. „Það er til dæmis mjög erfitt að bera saman svona punktmælingu, eins og svona próf sem er til dæmis tekið uppi í Verzlunarskóla á tveimur tímum, eða mælingu sem fer fram á heilu ári í grunnskóla, eða jafnvel þremur árum, eða tíu.“ Þannig sé það ónákvæmt og erfitt að nota þriggja til fimm tíma langt samræmt próf sem algildan mælikvarða á færni nemenda.

Það hljóta allir að skilja sem fremur augljós sannindi, enda hafa allir, eða í það minnsta langflestir, þreytt próf á ævinni sem gengu misvel. Margir þættir spila þar inn í aðrir en námshæfni.

Í það minnsta er þó faglegur skilningur kennara betri dómur á gildi og eðli menntunarfyrirkomulags en hagfræðingar sem sitja í Viðskiptaráði.

Fíllinn í stofunni er svo augljós. Menntakerfið hefur allar götur frá Hruni og raunar fyrir það líka verið leiksoppur hægrisins og sætt bæði niðurskurðar- og aðhaldskröfum í hvert sinn sem tækifæri gefst. Kennarar geta mótað hvaða þá stefnumörkun sem þeim lýst best á, en á meðan að hægri efnahagsstjórn skerðir fjárhagslegan stuðning við menntakerfið þá er ljóst að áhrif kennara á gang og stöðu menntakerfsins verða alltaf skert.

Efnahagsstaða samfélagsins hefur líka gríðarlega mikil áhrif á lærdómsgetu og hæfni barna. Þannig sést það skýrt í tölum PISA að börn sem eiga tekjulægri foreldra og alast upp í meiri fátækt, standa sig mun verr en önnur börn. Breyturnar eru nefnilega ekki svo hreinskiptar í gang drengja á móti stúlkna, þó það sé önnur vídd sem skoða þarf. Einnig er ljóst að þó að frammistaða drengja sé mun verri en stúlkna, þá standa stúlkur líka illa í alþjóðlegum samanburði.

Viðskiptaráð og leiðtogi þess, hann Björn Brynjúlfur, geta auðvitað aldrei viðurkennt þær staðreyndir, enda grafa þær undan hugmyndafræðilegri afstöðu þeirra gagnvart ofurvaldi markaðsafla og auðvaldsins í samfélaginu, sem þyrfti að skerða til að rétta af stöðu ýmissa innviða á Íslandi, ekki síst menntakerfisins. Betra er því að finna blóraböggla, sem í þessu tilviki eru kennarar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí