Óskar Steinn Ómarsson spyr hvort búið sé að afbema tjáningarfrelsið innan Hafnarfjarðarbæjar.
Hann telur að gagnrýni sem hann setti fram hafi leitt til þess að hann var sviptur starfi sem honum hafði verið lofað.
Forsaga málsins er að Óskar Steinn sótti um stöðu deildarstjóra tómstundamiðstöðvar Hraunvallaskóla. Að ráðningarferli loknu hringdi skólastjóri í Óskar og bauð honum starfið.
„Ég þáði það og fékk að vita að rafrænn ráðningarsamningur myndi berast mér innan tíðar,“ segir Óskar.
Viku síðar tók meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknar í Hafnarfirði ákvörðun að loka ungmennahúsinu Hamrinum, þar sem Óskar hefur unnið í hlutastarfi frá haustinu 2019.
Hann gagnrýndi þá meirihluta bæjarstjórnar harðlega, „eins og ég trúði að mér væri frjálst að gera sem frjáls maður í frjálsu landi“ segir Óskar. „Ég skrifaði m.a. grein um málið á Vísi þar sem ég fór yfir málsatvik og lá ekki á skoðunum mínum um bæjaryfirvöld og vinnubrögð þeirra í málinu.“
Daginn eftir að greinin birtist, þremur vikum eftir ráðningu segir Óskar að honum hafi borist símtal frá skólastjóra um að hann stæðist ekki menntunarkröfur til starfsins. Falla þyrfti frá ráðningu og auglýsa starfið upp á nýtt.
Óskar óskaði eftir rökstuðningi. Hann fékk hann en skautað er framhjá áralangri reynslu hans af tómstundastarfi með ungmennum og þeim fjölmörgu námskeiðum sem hann hefur sótt um ungmennastarf.
Hann stendur nú í stappi við Hafnarfjarðarbæ um það hvort sveitarfélagið geti fallið frá ráðningu í starf sem hann hafði verið ráðinn til að gegna.
„Á meðan dælir bærinn peningum útsvarsgreiðenda í að auglýsa starfið á samfélagsmiðlum og þurfti að framlengja umsóknarfrestinn því eitthvað virðist framboðið lítið af góðum kandídötum í starfið – einhverjum öðrum en mér allavega,“ segir hann.
„Eftir sit ég í atvinnuleit og get ekki annað en velt fyrir mér hvort búið sé að afnema tjáningarfrelsið innan bæjarmarka Hafnarfjarðar,“ segir Óslkar í færslu sem fer eins og eldur í sinu um facebook.