Þeir Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður hjá Mogganum, eru ekki ánægðir með Ríkisútvarpið.
Einkum eru þeir ósáttir við að Rúv hafi kallað til Torfa Tulinius prófessor í beina útsendingu í fréttatíma Rúv í gærkvöld. Þar ræddu Bogi Ágústsson og Torfi sigur hægri harðlínuafla í Frakklandi.
Brynjar telur að Rúv hafi nálgast hægri sveifluna í Frakklandi, það er sigur Þjóðfylkingarinnar, sem varasama þróun. Íslenskir fjölmiðlar séu einkum „með viðtöl við gamla þekkta vinstri róttæklinga, sem auðvitað glíma við mikinn herping og vanlíðan yfir úrslitunum“ eins og hann orðar það.
Brynjar efar að ástandið yrði skárra ef sósíalistar hefðu unnið franskan sigur enda hafi lýðræði og mannréttindi ekki átt upp á pallborðið hjá þeim.
Spyrill Sjónnmáls á mbl.is, Stefán Einar, hjólar svo beint í Boga Ágústsson fréttaþul og líkir við Joe Biden.
„Nýjasta viðtalið við dr. Túliníus á RÚV er með þeim dæmalausari sem tekin hafa verið,“ skrifar Stefán á facebook-þráð Brynjars. „Maðurinn fær að fara með staðlausa stafi og ljúga beinlínis á meðan Bogi Biden kinkar bara kolli og muldrar ofan í skyrtuvasann. Þetta er fólki boðið upp á á þess eigin kostnað og þeir sem hafa ekki víðari útsýn en þá sem fæst af neðstu hæðunum í Efstaleiti vita ekki betur. Gjörsamlega óþolandi og grímulaus áróður.“