Máfar stórkostlegir og fallegir þó Garðbæingar hati þá og vilji útrýma þeim

Um helgina var greint frá því á RÚV að hatur Garðbæinga á máfinum hafi náð nýjum hæðum. Því verður varla neitað að nokkuð margir Íslendingar hafa andstyggð á fuglinum þá ganga fæstir eins langt hópur Garðbæinga. Þar leggur Mávadeildin svokallaða margt á sig til þess eins og að henda eggjum máfsins í ruslið. Þeir allra áköfustu telja sig hafa fundið lokalausnina: möstur með hátíðnihljóðum sem eiga að fæla fuglinn burt. En hvers vegna hata Garðbæingar máfinn svo? „Það eru læti í honum,“ útskýrði einn Garðbæingur.

Máfurinn er þó ekki alveg vinalaus á Íslandi, enn hafa ekki allir snúið við honum bakinu. Menja von Schmalensee. líffræðingur á Náttúrustofu Vesturlands, er þar á meðal. Hún segir þessa herferð í Garðabæ í raun skammarlega því þvert á fordóma margra þá sé máfurinn stórkostlegur og fallegur fugl.

„Mikið finnst mér sorglegt að lesa um neikvæðni sumra Garðbæinga gagnvart sílamáfum undanfarin ár. Enn ein fréttin af því var flutt í kvöldfréttum RÚV í gær. Allir máfar hér á landi, þar með talið sílamáfar, eru stórkostlegir, áhugaverðir og fallegir fuglar, og eru eðlilegur hluti af náttúrunni,“ segir hún á Facebook og hvetur þá sem vilja fræðast meira um máfinn að lesa yfirlitsgrein sem hún og Róbert Arnar Stefánsson, bæði hjá Náttúrustofu Vesturlands, skrifuðu fyrir nokkrum árum um fuglinn.

„Varðandi stöðuna í Garðabæ vekur athygli að sílamáfsvarpið var þarna fyrst, þ.e. áður en byggð færðist nær og inn í varpið, og því ætti það að hafa verið öllum ljóst að nálægð máfa og manna yrði mikil á þessu svæði. Þeim mun óskiljanlegra er að þarna hafi verið reist hús með þökum sem mynda kjörið varpsvæði fyrir fuglana, ef þeir mega svo ekki verpa þarna (einfaldasta lausnin á þessu „vandamáli“ er auðvitað bara að breyta þökunum),“ segir Menja.

Hún segir nokkuð ljóst að máfahatur margra Íslendinga sé fyrst og fremst byggður á fordómum. „Mér hefur fundist máfahatur vera áberandi meðal Íslendinga. Hér gætir mikilla fordóma gagnvart þessum aðdáunarverðu sjófuglum og mun neikvæðara viðhorf en finna má í mörgum öðrum löndum, eins og við Róbert rekum einmitt í fyrrnefndri grein okkar. Mér hefur alltaf fundist þetta grátlegt, þar sem mér hefur ávallt verið mjög hlýtt til máfa. Kannski tengist það því að mínar bestu æskuminningar urðu til við strönd N-Jótlands og ég tengi máfa við sól, sumar, frí og gleði,“ segir Menja.

Hún vonar að Garðbæingar læri að lifa í samlyndi með fuglinum frekar en að leita að lokalausnum. „Ég get alveg sýnt því ákveðinn skilning að bagalegt sé að vera vakin af köllum máfa en hér biðla ég til fólks að reyna að breyta viðhorfi sínu og læra að lifa með þessari nálægð. Ég bý sjálf nálægt sjónum í útjaðri þéttbýlis og í nánd við fjölbreytta náttúru og er ég iðulega vakin á nóttunni eða eldsnemma morguns á vorin við ýmis fuglahljóð. Þar blandast köll máfa saman við kór garðfugla, eins og skógarþrasta, svartþrasta, stara og auðnutittlinga, ásamt hljóðum mófugla eins og hrossagauka, stelka, tjalda, spóa og heiðlóa. Stundum krunkar krummi með, og hápunkturinn er þegar stórir hópar margæsa fljúga syngjandi hér yfir. Ég fyllist alltaf gleði og auðmýkt yfir öllu þessu lífi, og þakklæti fyrir að deila tilveru minni með slíkum stórkostlegum verum. Alveg frá því að ég flutti í Stykkishólm fyrir 23 árum hefur mér fundist mikil forréttindi að búa í slíkri nálægð við náttúruna,“ segir Menja og bætir við að lokum:

„Ég óska þess svo innilega að við mennirnir lærum að lifa í sátt við allar þær stórkostlegu lífverur sem við deilum jörðinni með og hættum okkar endalausu yfirgangssemi! Það er einfaldlega okkur öllum í hag.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí