Matarkarfan, húsnæðisverð og útsölur ýta verðbólgunni upp

Matarkarfan, húsnæðisverð og útsölur fyrirtækja drífa verðbólguna áfram upp, að mati Unu Jóns­dótt­ur, for­stöðumanns hag­fræðideild­ar Lands­bank­ans.

Það mætti ætla að það væri ekki nauðsynlegt að berja höfðinu svo ítrekað við stein í samfélagumræðu og fréttaflutningi af þessum síðustu og verstu efnahagslegu tímum. Svo virðist þó vera nauðsynlegt.

Það er í sjálfu sér rannsóknarefni hvernig endalausar endurtekningar á hinu augljósa, hvort sem er frá hálfu Samstöðvarinnar eða spekúlanta á samfélagsmiðlum, eða frá hagfræðingum viðskiptabankanna, að slíkar staðreyndir virðast engann veginn bíta á hugarheim forystu Seðlabankans né forystusauða ríkisstjórnarinnar og Alþingis.

Það er morgunljóst að verðbólgan hér á landi er drifin áfram af tvennu umfram allt annað, það er viðvarandi og síversnandi húsnæðiskreppa og græðgisbólga fyrirtækja; matvöruverslana umfram allra annarra.

Samtök Atvinnulífsins tjáðu vilja sinn, sem fulltrúar fyrirtækja á landinu, til að halda aftur af almennum verðhækkunum til að liðka fyrir kjarasamningum. Í þeim samningum tók launafólk á sig skerðingu með tilliti til uppsafnaðrar verðbólgu þá og batt sig til fjögurra ára með þeim formerkjum. Afar hóflegar launahækkanir sem duga ekki einu sinni til að jafna út verðbólguhækkanir. Raunar hefur Ragnar Þór, formaður VR, sagt allar forsendur fyrir þeim kjarasamningum brostnar og veltir fyrir sér að slíta þeim á næsta ári.

Yfirvöld komu þó að borðinu, en það hafa þau svikið margoft áður og má hrósa fyrir ákveðna hluti eins og gjaldfrjálsar skólamáltíðir og barnabætur. Vaxtabætur til húsnæðiseigenda og hækkað hámark húsaleigubóta til leigjenda voru þó afar skammvinnar úrbætur sem leysa engan vanda. Enda vita leigjendur það manna best að húsaleigubætur og hækkanir á þeim eru étnar upp samstundis vegna hækkana á leiguverðum. Það sama gildir um marga húsnæðiseigendur sem sjá afborganir sínar stökkbreytast í hverjum mánuði.

Húsnæðiskreppan er leysanlegt vandamál, en þær lausnir hefðu auðvitað átt að koma til fyrir mörgum árum síðan til að koma í veg fyrir allar þær þjáningar og skerðingar á lífsgæðum sem hún hefur þegar valdið almenningi. Hið opinbera þarf að byggja sjálft, ekki treysta markaðinum fyrir því einungis, enda byggir markaðurinn of lítið á hverju einasta ári. Setja þarf á leiguþak sem takmarkar hversu mikið sé hægt að hækka leiguverð og setja því skorður sem miða við raungetu leigjenda til að borga, ekki við önnur markaðsverð eins og staðan er núna í því villta vestri sem leiguhelsið er orðið.

Þá er augljós lausn sem minnka mundi spennu á húsnæðismarkaði gríðarlega og það samstundis og án mikils kostnaðar eða tíma og það væri að banna umsvifalaust alla skammtímaleigu til ferðamanna. Þúsundir íbúða eru nú á þeim markaði og það er ótækt í miðri húsnæðiskreppu. Einnig standa margar íbúðir auðar, rétt eins og lóðir, því braskarar kaupa og sitja á þeim þangað til þeir geta selt þær strax aftur hærra verði. Skylda þarf lögheimilisskráningar og hindra eignauppsöfnun fjárfesta og auðugra á öllu húsnæðinu sem byggt er.

Matarkarfan og inn í það fellur líka áhrif útsala eins og Una Jónsdóttir talar um, eru áhrif græðgisbólgunnar. Útsölur eru leið fyrirtækja til að lokka að kaupendur og í sjálfu sér ekki jafnt slæmt, en þó vitandi það að slík fyrirbæri eru verðbólguhvetjandi þá er það arfaslæm ákvörðunartaka á svona tímum.

Matvöruverslanirnar eru þó öllu verri. Nú gengur um samfélagsmiðla kostulega fáránleg auglýsing frá Bónus, þar sem Sigurjón Kjartansson grínisti og leikari með meiru gengur um Bónus verslanir og skipar ungum starfsmanni að merkja allar vörur í búðinni með límmiða sem á stendur „Ódýrt“. Skilaboðin verandi sú að allt sé ódýrt í Bónus. Krónan hefur lengi iðkað það að merkja ákveðnar vöru með merkimiðanum „Ódýrt“ líka.

Fyrir það fyrsta má benda á að þessar tvær lágvöruverslanir hafa árum saman að því er virðist verið í verðsamráði, af því einu að dæma að nær allar þær vörur sem báðar verslanir selja eru með einnar krónu mun í verði. Krónan með einni krónu hærra verð. Ekki má skilja það sem raunverulega samkeppni.

Hitt er að neytendur vita það manna best að reglulegar ferðir út í búð eru alltaf ný upplifun því eitthvað í matarkörfunni og yfirleitt margt, hefur hækkað í verði frá því að síðast var farið. Verðhækkanir á matvörum eru tíðar og miklar og virðast einmitt dansa eftir eigin höfði, ekki verðbólgunnar, því þær hækka sama hvort verðbólgan sjálf lækki eða hækki. Oftast um langtum fleiri prósent en verðbólgan segir til um.

Þá ber að hafa í huga að fyrirtækin sem eiga umræddar verslanir skila ofurhagnaði ár hvert. Fyrirtækjasamsteypan Hagar skilaði þannig 5 milljarða hagnaði á síðasta ári. Samsteypan á bæði Bónus og Hagkaup, ásamt fleiri fyrirtækjum.

Það er alltaf frískandi að heyra hagfræðinga bankanna taka undir augljósa gagnrýni, þó þau geri það auðvitað með mildari hætti en sannleikurinn krefst. Una sem dæmi segir það ljóst að húsnæðiskostnaður og hækkun matarkörfunnar séu umfram spár og væntingar og séu bókstaflega að drífa áfram verðbólguna. Það aftur á móti gerir það að verkum að spár Landsbankans geri ekki ráð fyrir lækkun stýrivaxta í ágúst.

Það þrátt fyrir að hagfræðingar, eins og til dæmis Marinó G. Njálsson og Jón Bjarki Berentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka, bendi á að stýrivaxtahækkanir geti hæglega leitt landið í raunverulega kreppu. Marinó benti líka á að áhrif vegna vaxtabreytinga taki allt að 12-18 mánuði til að hafa áhrif. Mælingar á milli mánaða hafa því ekkert um það að segja hvort lækka eigi stýrivexti í næsta mánuði.

Vilhjálmur Birgissson, formaður Starfsgreinasambandsins, benti líka á það í dag að sú stefna Seðlabankans hafi beðið algert skipbrot.

Það ætti að vera ljóst að á meðan að yfirvöld eru með öllu aðgerðalaus í því að taka á húsnæðiskreppunni og meðan að fyrirtækjum er gefinn algerlega laus taumurinn til villtra og frjálslegra verðhækkana, sér til hagnaðar, þá verður þetta ástand ekki lagað. Háir stýrivextir hafa þá afleiðingu helsta að herða enn frekar sultaról þeirra með óhagstæð húsnæðislán, sem eru allra jafna yngra og efnaminna fólk sem hoppaði á tækifærið á tímum Covid vegna lágra vaxta. Hinir efnameiru sem kaupa upp allt nýbyggt húsnæði nýta sér svo stöðuna líka til að réttlæta okurhækkanir á leiguverðum, því húsnæði er fyrir löngu orðin arðbærasta fjárfestingavara Íslands í dag.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí