Ragnar Þór segir versnandi húsnæðiskreppu og aðgerðaleysi forsendubrest – Kjarasamningum gæti verið slitið fyrir vikið

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stöðuna á húsnæðismarkaði algeran forsendubrest og það auki „til mikilla muna“ líkurnur á því að kjarasamningum verði sagt upp á næsta ári við endurskoðun þeirra eins og samið var um að gera skyldi að ári liðnu.

Samstöðin hefur fjallað rækilega um húsnæðiskreppuna undanfarið og því koma orð Ragnars ekki á óvart, enda hefur formaður VR verið einna háværastur allra við að vara við ástandinu á undanförnum árum.

„Þetta er auðvitað þróun sem að er fyrirsjáanleg og ég hef bent á þetta í mjög langan tíma að það sem vofir yfir leigumarkaðnum er ákveðin snjóhengja sem að er brostin,“ sagði Ragnar í viðtali við Vísi.

Leigufélög í gróðarekstri hafi ýtt upp verðunum með „gríðarlega miklar og ósanngjarnar hækkanir“ í mörg ár og vísar Ragnar þar væntanlega í leigufélög eins Ölmu og fleiri sem makað hafa krókinn á húsnæðiskreppunni og neyð leigjenda árum saman.

„Þetta í rauninni endurspeglar í rauninni vandann og það hrikalega ástand sem fólk á leigumarkaði býr við. Þar sem að öll sú framfærsluaukning og kaupmáttaraukning sem við erum að semja um í kjarasamningum hún er fokin út um gluggann nánast einhverjum vikum eða mánuðum seinna og gott betur,“ segir Ragnar.

Það liggur auðvitað í augum uppi að ámátleg hækkun yfirvalda á hámarki húsaleigubóta í nýgerðum kjarasamningum er fljót að hverfa þegar leiguverð hækka fimmfalt á við verðbólguna á milli mánaða, núna tvo mánuði í röð eins og Samstöðin fjallaði um. Á ársgrundvelli hefur vísitala leiguverðs hækkað um 13% frá því í fyrra, sem þýðir auðvitað að fyrir fjöldamarga hefur hækkunin orðið miklu meiri en það, enda sú tala byggð á meðaltali.

Ragnar segir Bjarg, óhagnaðdrifna leigufélagið sem hann er í formennsku fyrir og hefur byggt upp, hafi ekki tekið þátt í þessum verðhækkunum. „Við höfum ekki þurft að hækka leiguna.“ Vandi Bjargs sé hins vegar sá að þau fá ekki lóðir til að byggja á. „Við höfum verið með svona um það bil tvö til þrjú hundruð íbúðir í byggingu á hverjum tíma en nú erum við með um sjötíu íbúðir í byggingu og það endurspeglar í rauninni grundvallarvandann, það er bara lóðaskortur. Við fáum ekki lóðir til að byggja hagkvæmt, þær fara bara á markað, þær eru seldar bröskurum og hæstbjóðendum og einhverjum byggingarþróunarfélögum sem eru ekkert að fara að byggja“.

Lóðabrask sé einfaldlega sökin, því lóðir eru víða en þær sitja í vösum fjárfesta og eignafólks sem hagnist á kaupum og sölu þeirra án þess að byggja nokkurn skapaðann hlut. „Ef við tökum til dæmis Höfðabakkann sem var seldur nýlega, byggingarreitur þar, það voru yfir þrír milljarðar sem bættust við á verðmiðann á milli eigendaskipta og það er ekki farin skófla ofan í jörðu.“ Ragnar vísar þar í lóðabrask fyrirtækisins Þorpsins sem Heimildin gerði úttekt á og Samstöðin fjallaði rækilega um í kjölfarið.

Markaðsleið yfirvalda er vandamál, því þau leiða líka til hærri kostnaðar. Þessu er Ragnar Þór sammála. „Sveitarfélögin þau horfa á þetta sem tekjustofn og selja hæstbjóðendum án þess að það séu sýnilega settar miklar kvaðir á það að þeir sem fá úthlutað raunverulega byggi á lóðunum. Í dag er þetta þannig að verktakarnir þeir stjórna algjörlega þessum markaði.“

Ragnar Þór segir yfirvöld, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, hafa algerlega brugðist í þessum efnum sem og við að stemma stigu við skammtímaleigumarkaði til ferðamanna sem fær að grassera á sama tíma og húsnæðiskreppa ríkir fyrir almenning í landinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí