Seldu lóðir á Ártúnshöfða fyrir margra milljarða hagnað – nýr eigandi byggir lúxusíbúðir til ferðamanna

Dótturfélag „fasteignaþróunarfélagsins“ Þorpið vistfélag, keypti lóðir á Ártúnshöfða árið 2021 á 7,4 milljarða og seldi á síðasta ári fyrir 11 milljarða. Af frádregnum lánagreiðslum og verðlagsbreytingum er hagnaðurinn áætlaður á rúmlega 2 milljarða. Ekkert var byggt á lóðunum á þessum tíma, einungis var þar um að ræða aukningu á verði lóðarinnar sjálfrar.

Þetta og fleira kemur fram í nýrri afhjúpun frá Heimildinni varpar ljósi á það hvernig lóðir ganga kaupum og sölum, í því sem í almennu tali er gjarnan kallað lóðabrask.

Þorpið skapi „samfélagsleg verðmæti“

Þorpið vistfélag kallar sig „fasteignaþróunarfélag“ og lýsir starfsemi sinni sem „þróun lóða fyrir einstaklinga og fyrirtæki“ þar sem lagt sé áherslur á „hagkvæmni, grænar lausnir og vistvænt umhverfi“.

Ennfremur segir á vefsíðu félagsins að þau starfi með hönnuðum og byggingafyrirtækjum og þrói lóðirnar „í takt við þarfir markaðarins“ og halda því fram að þau sameini „hagsmuni kaupenda, fjárfesta, sveitarfélaga og byggingaraðila“ til þess að „skapa samfélagsleg verðmæti“.

Nú verður ekki séð á neinn hátt að það að sitja á verðmætri byggingarlóð í þrjú ár og byggja ekki nokkurn skapaðann hlut, selja svo lóðirnar og taka út fleiri milljarða ávinning af sölunni, sé til þess fallið að skapa verðmæti fyrir samfélagið. Ekki nema þeirra skilgreining á því hugtaki sé einungis það að auðgun fjárfesta sé verðmætt fyrir samfélagið allt.

Þá verður ekki heldur séð hvaða tilgangi þetta félag þjóni. Það hvorki hannar né byggir, heldur vinnur með hönnuðum og byggingafyrirtækjum. Það virðist því aðeins hafa það hlutverk að kaupa lóðirnar og sitja á þeim. Í það minnsta var það eina hlutverk þess á endanum í þessu tilviki.

Dótturfélag Þorpsins, sem heitir Þorpið 6 var eignarhaldsfélagið sem keypti lóðirnar árið 2021, en Þorpið 6 er í eign margra fjárfesta. Stærsti staki fjárfestirinn er Birta lífeyrissjóður með 15,6% eignarhlut en næst kemur Áslaug Guðrúnardóttir, einn fjögurra framkvæmdastjóra Þorpsins vistfélags. Já fjögurra framkvæmdastjóra, þú last það rétt. Starfsfólk félagsins samkvæmt vefsíðunni er aðeins fernt og öll eru þau titluð sem framkvæmdastjórar.

Fjórir framkvæmdastjórar Þorpsins vistfélags.

Aðrir hluthafar eru Eiríkur Vignisson, útgerðarmaður, með 9,18% hlut og Róbert Wessmann með tæpan 8% hlut. Sigurður Smári Gylfason, einn fjögurra framkvæmdastjóra félagsins á einnig stóran hlut eða 14,25%. Fullur listi eigenda eins og má sjá í frétt Heimildarinnar:

 • Birta lífeyrissjóður 15,6 prósent
 • Aðrir hluthafar 15,10 prósent
 • Áslaug Guðrúnardóttir 14,25 prósent
 • Sigurður Smári Gylfason 14,25 prósent
 • Eiríkur Vignisson 9,18 prósent
 • Róbert Wessman (Hrjáf ehf.) 7,60 prósent
 • Friðjón Örn Hólmbertsson 5,3 prósent
 • Jón Ármann Guðjónsson 3,9 prósent
 • Ásta Pétursdóttir 2,9 prósent
 • Lilja Ragnhildur Einarsdóttir 2,7 prósent
 • Davíð Másson 2,7 prósent
 • Ragna Kristjánsdóttir 2 prósent
 • Gyða Dan Johansen 1,9 prósent
 • Sigríður Eiríksdóttir 1,02 prósent
 • Guðný María Jóhannsdóttir 0,75 prósent
 • Gunnar Egill Sigurðsson 0,75 prósent
 • Óþekktir endanlegir eigendur 0,10 prósent 

Bæði Birta lífeyrissjóður og Áslaug Guðrúnardóttir segjast hafa lagst gegn sölunni, en það var eiginmaður Áslaugar og hinna framkvæmdastjóra Þorpsins vistfélags, Runólfur Ágústsson, sem bar hugmyndina fram um sölu lóðanna.

Nýjir eigendur hafa byggt fjölda lúxusíbúða fyrir ferðamenn

Þessi sala er markverð útfrá nokkrum þáttum. Fyrir það fyrsta eiga þessar lóðir sér langan aðdraganda og sögu af braski. Árið 2019 voru samningar um lóðirnar undirritaðir og stærstu eigendur þeirra voru Reykjavíkurborg og fyrirtækið Árland, í eigu Agros fjárfestingasjóðs. Árland seldi til Þorpsins árið 2021 og ekkert var byggt í millitíðinni. Þorpið hefur nú selt til fasteignafélagsins Skugga 4 ehf. og ekkert byggt í millitíðinni. Skuggi er í eign Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar, en hann hefur verið umsvifamikill í fasteigna- og lóðakaupum undanfarin ár, einna helst í Vestmannaeyjum.

Í Eyjum hefur Kristján byggt lúxusíbúðahótelið Westman Islands Luxury Villas og rekur ásamt konu sinni Margréti Skúladóttur Sigurz. Einnig hafa þau gert upp atvinnuhúsnæði í aðrar lúxusíbúðir, sem og keypt fjöldan allann af lóðum og byggt á þeim lúxusíbúðir, þar á meðal fjögur hús og níu aðrar lóðir. Í umfjöllun MBL árið 2021 kom fram að allar þessar fjárfestingar hjónanna í húsnæði sé „ætlað ferðamönn­um þar sem þau sjá mikla mögu­leika“.

Spurning er hvort Kristján og Margrét sjái mikla möguleika í því sama með lóðirnar á Ártúnshöfða, að byggja þar íbúðir til útleigu til ferðamanna, í einu af nýju hverfum borgarinnar sem leysa átti húsnæðisvanda íbúa landsins. Í það minnsta er ljóst að hjónin keyptu lóðirnar og byggingaréttinn á þeim, ekki til að byggja óhagnaðardrifið eða raunverulega ódýrt húsnæði til sölu, heldur til að taka út sinn skerf af gróða, eins og allir fyrri eigendur lóðanna.

Ef þau verða þau fyrstu til af öllum lóðareigendunum, til að raunverulega byggja þarna á þessum blessaða þróunarreit borgarinnar, þá má búast við því að þar rísi upp rándýrar og jafnvel „lúxus“ íbúðir á tímum húsnæðiskreppu.

Máttleysi reglugerða Sigurðar Inga gegn lóðabraski

Uppruna sinn á þetta margra áralanga brask í aðferðum Reykjavíkurborgar, en það er auðvitað borgin sem upphaflega selur lóðirnar til fjárfesta, með einhvers konar barnalegri von og sýn á það að viðkomandi aðilar muni af einhverjum ókunnum ástæðum byggja „hagkvæmt“ húsnæði. Sem hvert mannsbarn ætti að skilja og sjá umsvifalaust að er dæmt til að mistakast, enda eru svona lóðir gríðarlega verðmætar í skorts og kreppuástandi eins og ríkir nú á húsnæðismarkaði.

Þá er hitt að lagasetning og reglugerðir eru fullkomlega máttlausar gegn svona athæfi og braski. Sigurður Ingi var stóryrður í garð lóðabraskara þegar hann náði hertari reglum í gegnum Alþingi árið 2022. Reglurnar voru sannarlega hertari, en þá liggur það allt í samanburðinum, enda var regluverkið ekkert fyrir. Nýju reglur Sigurðar Inga gefa sveitarfélögum heimild, nota bene ekki skyldu eða kvöð, bara heimild, til að taka lóðir til baka ef ekkert er byggt á þeim innan fimm ára. Braskarar geta því samt setið á lóðum í fimm ár og jafnvel þótt þeir sitji lengur þá veltur það á ráðandi öflum hverju sinni í stjórnum sveitarfélaga hvort þau vilji nota reglugerðina.

Þessi fullkomna firring með lóðirnar á Ártúnshöfða sýnir það skýrt að hertari reglur Sigurðar Inga eru það máttlausar að þær gætu allt eins ekki verið til staðar. Árland seldi innan fimm ára og tók út sinn skerf, Þorpið seldi innan fimm ára og tók út sinn gríðarmikla skerf og Skuggi tekur nú við og getur ráðið því fullkomlega hvað þau gera; selja á ný og taka út sinn skerf, eða byggja hvað sem þeim dettur í hug af óhagkvæmu húsnæði eða ekki, til ferðamanna eða ekki.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí