Stjórnmálaleiðtogi Hamas drepinn í Íran

Ismail-Haniyeh

Í dag (miðvikudag 31. júlí) tilkynntu stjórnvöld í Íran að stjórnmálaleiðtogi Hamas-samtakanna, Ismail Haniyeh, hafi verið drepinn á meðan hann var í heimsókn í Teher­an (höfuðborg Íran). Hamas hafa staðfest andlát hans og kenna Ísrael um.

Deilt er um hvort þetta hafi verið drónaárás eða eldflaugaárás sem varð honum að bana. Ísrael hefur enn ekki lýst yfir ábyrgð á morðinu, en flestir virðist vera sammála um að Ísrael hafi staðið að baki þessari árás, enda hafa stjórnvöld í Ísrael lýst því yfir að ætla að drepa leiðtoga Hamas eftir árásina 7. október.

Ismail Haniyeh var búsettur í Katar, en var í heimsókn í Íran til að vera viðstaddur embætt­is­töku nýkjörins forseta landsins, Masoud Pezeshkian.

Ismail Haniyeh á fundi með æðsta klerki Íran, Ali Khamenei, í gær (þriðjudag 30. júlí), daginn áður en hann var drepinn.

Associated Press segir drápið á Ismail Haniyeh í Íran skapa hættu á að stríð brjótist út á svæðinu. Æðsti klerkur Íran, Ali Khamenei, hefur hótað hefndum. Tyrkland, Rússland, Sýrland og Írak hafa einnig fordæmt drápið og vara við stigmögnun á svæðinu.

Viðar Þorsteinsson hefur skrifað greinargóða færslu á Facebook þar sem hann greinir frá stjórnmálaferli Ismail Haniyeh:

Ismail Haniyeh var einn þeirra sem leiddi Hamas í átt frá hryðjuverkum 10. áratugarins og annarrar Intifada uppreisnarinnar.

Undir forystu hans og Khaled Meshaal hófu Hamas þátttöku í lýðræðislegum stofnunum palestínsku heimastjórnarinnar með því að bjóða fram til þings og sveitastjórna (2005 og 2006), breyttu umdeildri stofnskrá sinni og lýstu sig viljug til að sættast á tveggja ríkja lausn miðað við landamærin frá 1967. Allt voru þetta meiriháttar stefnubreytingar, málamiðlanir sem kröfðust mikils hugrekkis af Haniyeh og forystu Hamas.

Þegar Hamas lönduðu stórsigri í sögulegum þingkosningum árið 2006 beitti Haniyeh sér fyrir því að leiða saman allar fylkingar palestínskra stjórnmála í þjóðstjórn. Með þessu sýndi Haniyeh fádæma auðmýkt og vilja til að taka hagsmuni og samstöðu allrar palestínsku þjóðarinnar fram yfir flokkadrætti.

Ísrael, Evrópusambandið og Bandaríkin gengu hins vegar sameinuð fram í því að gjöreyðileggja allar vonir um að lýðræðislegur vilji palestínsku þjóðarinnar í þingkosningunum 2006 yrði virtur, hvað þá að þessi vatnaskil yrðu nýtt til að þvinga loksins fram hlýðni Ísraels við alþjóðalög og binda endi á hernámið. Þvert á móti var herforingjum Fateh att á foraðið og þeim veittur stuðningur til að steypa Haniyeh af stóli í siðlausu valdaráni. ESB, BNA og Ísrael beitti palestínsku þjóðinna auk þess grófum efnahagsþvingunum til að ógilda niðurstöður kosninganna.

Hamas enduðu með því að ná yfirráðum eingöngu á Gaza og vera í áframhaldandi pólitískri útlegð frá stofnunum heimastjórnarinnar. Haniyeh byggði upp heimahöfn á Gaza. Hamas sigldu næstu árin milli skips og bryggju í samskiptum við bandamenn sína, og var þar erfiðasti hjallurinn sýrlenska borgarastríðið þar sem Hamas ákváðu að fjarlægja sig frá Assad og flytja aðsetur miðnefndar sinnar (politburo) frá Damascus. Þessu fylgdi tímabundin kólnun í samskiptum við Íran og Hizbollah.

Öll þau ár sem Haniyeh sat sem forsætisráðherra útlagastjórnar í Gaza var svæðið reglulega sprengt í tætlur. Hamas byggðu þrátt fyrir þetta upp andspyrnu sem var fær um að verjast með heimagerðum eldflaugum og fela sig í neðanjarðargöngum. Al-Qassam herdeildirnar eru í dag andspyrnusveit sem á meira skylt við hefðbundinn hernað en hryðjuverkastarfsemi.

Að afloknu hinu hörmulega sýrlenska borgarastríði byrjaði staða Hamas innan stjórnmála í Miðausturlöndum að styrkjast að nýju og þau urðu á ný ein meginstoðin í “anspyrnuöxlinum” en þó aldrei á kostnað hollustu sinnar við palestínsku þjóðina.

Gagnárásin 7. október 2023 var síðasta meiriháttar pólitíska og hernaðarlega aðgerð Hamas í valdatíð Haniyeh, en þá voru aðrir leiðtogar (Deif, Sinwar) orðnir fyrirferðarmeiri og orðin viss kynslóðaskipti. Aðgerðin var hernaðarlegur og pólitískur jarðskjálfti sem hefur skekið alla heimsbyggðina og náði sennilega markmiðum sínum í vissum skilningi, sem er þó erfitt fyrir okkur sem lifum utan þessa veruleika að ná utan um, enda afleiðingarnar þannig að erfitt er að tala um sigur í því sambandi.

Haniyeh bætist í hóp leiðtoga Hamas sem hafa verið myrtir af Ísrael, þeirra þekktastir Sheikh Yassin og Abdel Aziz al-Rantisi sem voru teknir af lífi í lok annarrar Intifada uppreisnarinnar. Samtökin hafa alltaf lifað af aftökur leiðtoga sinna, ávallt hefur verið til staðar neðra lag af þjálfuðum arftökum sem hafa haldið kyndlinum á lofti. Raunar er ótrúlegt og eftirtektarvert hvernig Hamas hefur áratugum saman tekist að forðast leiðtogakrísur eins og þær sem oft hrjá pólitískar hreyfingar. Skipulag Hamas gerir ráð fyrir því að æðstu leiðtogarnir geti horfið skyndilega á braut.

Mér segir svo hugur að Haniyeh hafi ekki lengur verið aðalforystumaður Hamas og að þótt höggvið sé skarð þá verði það fyllt hratt og örugglega.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí