Mikil umræða hefur orðið í dag á facebook-síðu Vilhjálms Birgissonar verkalýðsleiðstoga vegna gjaldþrots Skaginn 3x. Hátt í 200 störf hafa tapast.
Margir ræða þörf þess að ný fyrirtæki komi sér upp aðstöðu á Skaganum og starti blómlegu atvinnulífi í stað þess sem hefur farið í súginn. Gunnar Smári Egilsson blaðamaður sker sig nokkuð frá öðrum með því að minna á að verkafólkið búi til verðmætin en ekki þeir sem standa efst í fæðukeðjunni.
„Á síðustu öld byggðu sveitarfélögin sjálf upp atvinnulíf, ekki bara bæjarútgerðir sem leiddu framför landsmanna í sjávarútvegi heldur allskyns atvinnustarfsemi. Er ekki kominn tími til að Skagamenn taki málin í eigin hendur?“ Spyr Gunnar Smári og bætir við:
„Það er til lítils að bíða eftir einhverjum lukkuriddurum, kapítalistum. Þeir munu hvort sem er ekki koma nema semja um afslætti á öllum gjöldum og ganga svo frá málum að allur arður af starfseminni renni til þeirra en ekkert til bæjarfélagsins. Það hljómar kannski ótrúlega á tímum síðari tíma heilaþvottar en ríkt fólk býr ekki til verðmæti heldur verkafólk. Skagamenn þurfa ekki ríkt fólk til að byggja upp atvinnu. Ríkt fólk rænir verkafólk arðinum af vinnunni og völdum yfir uppbyggingu heimaslóða.“