„Við óskuðum eftir því að Efling gæfi okkur leyfi til að taka úrtak meðal kvenna í þeirra stéttarfélagi. […] Það sem er gegnumgangandi í öllum niðurstöðunum, er að konurnar sem eru á lágum launum, 500 þúsund eða minna árið 2022, hafa minni trú á hinu opinbera kerfi. Til dæmis ef við spyrjum hvort viðkomandi haldi að hið opinbera myndi aðstoða þig eða vera til taks ef þú þyrftir á því að halda, þær hafa minni trú á því. Líkamleg heilsa þeirra er verri. Andleg heilsa er verri. Þær þurfa að neita sér um hluti svo sem kuldaskó eða hlýja úlpu.“
Þetta sagði Kristín Heba Gísladóttir, forstöðukona Vörðu, rannsóknaseturs vinnumarkaðarins, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld þar sem hún ræðir stöðu lágtekjukvenna á Íslandi í dag. En Kristín bendir á að það eru ekki einungis konurnar sjálfar sem finna fyrir ömurðinni sem fylgir lágum launum, því börn þeirra hafa það jafn skítt.
„Konurnar sem eru á lægstu laununum eru konurnar sem halda uppi velferðarkerfinu okkar. Þær eru á leikskólunum með börnin okkar, í grunnskólunum, í heilbrigðisþjónustunni, á öldrunarheimilunum. Ég verð bara dálítið reið við þessa hugsun.“
Viðtalið við Kristínu Hebu má sjá við Rauða borðið í kvöld.