„Það er verið að reyna að pensla yfir sannleikann og raunveruleikann, sem er frekar ljótur. Þegar þú keyrir fram hjá skólum og það er bara búið að hlaða fullt af gámum fyrir utan. Þetta eru ekkert annað en gámar á skólalóðunum. Við setjum börnin þangað í stað þess að leggja einhvern lágmarksmetnað í það að byggja byggingar fyrir börnin okkar, sem er svo haldið við. Ástæðan fyrir því að margar þessar byggingar eru að hruni komnar er mygla og að þeim hefur ekki verið haldið við. Á ensku er sagt: „a stich in time saves nine“, að eitt spor á réttum tíma geti bjargað níu manns seinna meir. Nú erum við komin á þann stað að þessir skólar eru svona og það er „ekki til peningur“ til að byggja fallega skóla fyrir börnin okkar. Horfðu á Melaskóla, þetta var byggt sem skóli og þú sæir þetta ekkert í dag.“
Þetta segir listakonan Sara Óskarsdóttir í viðtali við Rauða borðið. Hún og önnur listakona, Lóa Hjálmtýsdóttir, hafa blandað sér í umræðu um hnífaburð ungmenna en ólíkt mörgum vilja þær setja meinta ofbeldisöldu í samhengi við hvernig samfélagið hefur þróast á Íslandi undanfarið. Þá ekki síst sem afleiðing af stefnu stjórnvalda og ekki síður áberandi aðgerðarleysi í mörgum ólíkum málaflokkum. Líkt og fyrr segir þá bendir Sara á að hvernig margir grunnskólar séu varla starfhæfir vegna myglu og það sé fyrst og fremst stjórnvöldum að kenna. Þannig sé mygluvandamálið og vopnaburður ungmenna ekki eins ólík mál og við fyrstu sýn, því rót vandans í báðum tilvikum sé líklega afleiðing af stefnuleysi og ekki síður aðferðarleysi stjórnvalda.
„Ég er mjög hugsi yfir því hvað skilaboð við séum að senda börnunum okkar þegar við segjum þeim „þetta er nógu gott fyrir ykkur“. Þið getið verið þarna. Forgangsröðun fjármuna segir sitt. Svo er annað, Stóra-sundlaugamálið. Ungt fólk hefur verið að sækja í það að fara í sund á kvöldin og um helgar. Þar eru engir hnífar. Og engin skjátæki og það er enginn í dýrustu fötunum. Það eru engar auglýsingar. Og þau eru ekki að drekka í sundi né reykja. Það er ákveðin jöfnun sem á sér stað í sundi,“ segir Sara og heldur áfram:
„Þarna var ákveðið að stytta opnunartíma sundlaugarinnar, þvert á óskir ungs fólks. Þau meira að segja mættu á borgarráðsfund og óskuð eftir því að þessu yrði afstýrt þessum skertu opnunartíma. Það var ekki orðið við því.“
Viðtalið við þær Söru og Lóu má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan.