„Almennt séð þá er mjög skrýtið að einhver einn aðili eigi tvo banka. Við sjáum þannig ekkert að því í prinsipinu að ríkið selji allavega annan bankann og eigi þá bara einn banka, með ákveðin samfélagsleg sjónarmið fyrir stafni. Eða þá bara að sameina þá eða hvernig sem það er. Það er tilgangslaust að eiga tvo bíla, þegar það er bara einn til að keyra.“
Þetta sagði Björn Leví Gunnarsson Pírati í liðnum Þingið við Rauða borðið í gær. Þar var meðal annars fyrirhuguð sala ríkisins á hlut almennings í Íslandsbanka rædd en svo virðist sem sú sala verði keyrð í gegn um Alþingi í vetur, þrátt fyrir nokkuð útbreidda andstöðu. Þó fyrrnefnd orð Björns megi túlka sem svo að Píratar styðji fyrirhugaða sölu þá sé málið ekki alveg svo einfalt.
„Það hefur allaf verið haft til hliðsjónar í öllu þessu ferli að þegar að kemur að sölu, þá sé það gert af því að aðstæður séu heppilegar til sölu. En hér er búið að stilla þessu þannig upp að það eigi að vera búið að selja bankann fyrir löngu, það eigi bara að klára það, óháð því hvort það fáist gott verð fyrir hann. Hvað aðstæður leyfa. Og það er ekkert rosalega ábyrgt,“ sagði Björn Leví við Rauða borðið í gær.
Viðtalið við Björn Leví ásamt Brynjari Níelssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.