Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir að ekki verði sé hægt að horfa fram hjá breyttum veruleika hjá íslenskum ungmennum vegna þeirrar ofbeldisöldu sem nú virðist geysa þeirra á meðal. Hún hvetur þó foreldra til þess að bregðast ekki við þeirri alvarlegu stöðu með því að auka enn einöngrun ungmenna frá jafnöldrum sínum.
„Ég held að við verðum að hughreysta börnin okkar og ef við vilum hvetja þau til að taka þátt í einhverri starfsemi, að taka þá þátt í félagsstarfi sem er skipulagt af skólanum til dæmis. Að taka þátt í íþróttum og tómstundum á þeirra vegum, þar er þó gæsla og þar er öryggi, reynt að tryggja öryggi allra,“ segir Sólveig Guðrún. Þetta eigi ekki við um alla viðburði sem ungmennum sé boðið á. Skýrasta dæmið um það sé óneitanlega Menningarnótt.
„Nú er þetta mín persónulega skoðun, en ég set spurningarmerki við stóran mannsöfnuð eins og var niðri í Miðbæ, þar sem er verið að bjóða ungmennum niður í bæ í dagskrá sem borgin er að standa fyrir en gæslan er ekki meiri en hún er, á Menningarnótt. Væri ekki hægt að klára svoleiðis samkomur klukkan átta? Það er eitthvað sem mér finnst vert að skoða. Ég fór niður í bæ á Menningarnótt og það var ekki beint sýnileg gæsla. Þetta er kannski óvinsælt álit,“ segir Sólveig Guðrún.
Viðtalið við rektor má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan.