Á dögunum var greint frá því að hvergi innan OECD hefðu innflytjendur eins lélega færni í tungumáli landsins og á Íslandi. Samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna telja einugis um 18 prósent innflytjenda til Íslands sig hafa góða færni í íslensku – samanborið við um 60 prósent að meðaltali innan OECD, en flest Vesturlönd eru aðilar að samtökunum.
Hvers vegna sker Ísland sig svo rækilega úr öðrum löndum hvað þetta varðar? Í viðtali við Rauða borðið segir Roberto Luigi Pagani, aðjúnkt við HÍ, að í raun megi skella skuldinni á bæði stjórnvöld og samfélagið í heild:
„Það er tvennt sem veldur þessu. Það vantar fjárfestingu, það vantar kennsluefni og það vantar kennara. Það eru örfáir kennara og örfáir möguleikar á því að læra tungumálið á Íslandi. Síðan vantar þrýsting í samfélaginu, það er mjög auðvelt að búa á Íslandi án þess að tala íslensku. Málið er, að til að læra tungumálið, þá finnst mér nauðsynlegt að fá einhvers konar óþægindi einhvern tímann.“
Roberto bendir á að það sé í raun skaðlegt hve fljótir Íslendingar séu að skipta yfir í ensku. „Íslendingar eru svo duglegir að tala ensku og fljótir að skipta yfir, ef þeir eru að tala við fólk sem er ekki alveg öruggt. Það var reynsla mín, hefur gerst margoft, alveg þangað til að ég ákvað að láta eins og ég kynni ekki ensku. Það var auðvitað óþægilegt, margt sem ég skyldi ekki, skapaði allskonar vandamál, en það hjálpaði samt. Ég myndi segja að það væri nauðsynlegt,“ segir Roberto.
Hér fyrir neðan má sjá og heyra viðtalið við Roberto í heild sinni en auk þess að ræða stöðu innflytjenda á Ísland þá segir hann okkur frá stjórnmálum á Ítalíu.