„Þetta ofbeldi er ekkert nýtt en það verður alltaf grófara og grófara. Það er að versna. Það er bæði vopnaburður og notkun vopna. Við erum að sjá notkun á vopnum svo sem byssum, hótanir eða ógnanir um að þeim verði beitt. Hnífstungur þar sem alvarlegar afleiðingar hafa átt sér stað. Við sjáum ekki alltaf í endanum á þessu, þó það hafi ekki hlotist bani af í öllum tilvikum, þó hefur það átt sér stað. Það má telja upp manndráp niður á Austurvelli, Fjarðarkaupsmálið og svo þetta hræðilega mál á Menningarnótt.“
Þetta segir Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Þráinn segir þetta eiga ekki síst við um afbrot yngri og óþroskaðri manna. Þó breytingar hafi einnig átt sér stað hvað afbrot eldri manna varðar, þá séu umbyltingin ekki eins mikil meðal þeirra.
„Ég verð var við það að það er meiri svona óvægin staða þeirra sem eru jaðarsettir, þeir eru einhvern veginn bremsulausari. Það er ekki þannig að menn hafi ekki borið á sér vopn síðustu áratugi, ég þori að fullyrða það. Menn gengu alltaf með vasahníf, það er auðvitað vopn. En þrátt fyrir átök og annað, þá var þeim aldrei beitt.“
Viðtalið við Þráinn má sjá og heyra í heild sinni við Rauða borðið í kvöld.