„Maður finnur fyrir djúpum trega í samfélaginu, vegna þess sem hefur verið að gerast og það er augljóst að af nokkru leyti þá erum við ekki á góðri vegferð með ákveðna hluti og við þurfum að grípa inn í. Við verðum samt að horfa á það að þarna eru miklir harmleikir, óskiljanlegir harmleikir sem eiga sér stað. En þeir eru kannski ekki alveg eins lýsandi fyrir samfélagið sem við búum í.“
Þetta segir Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Þar mun Ársæll ræða uppeldi og samskipti foreldra við börn á þeim víðsjárverðu tímum sem við lifum á.
„Það er auðvitað auðvelt að benda á einhverja kerfislega þætti, en við komum aldrei til að smíða kerfi sem að gerir okkur algjörlega frjáls undan svona atburðum. Þetta gerist, þetta er skelfilegt, en við komum ekki til með að geta búið til kerfi sem kemur í veg fyrir þetta,“ segir Ársæll.
Viðtalið við hann má sjá og heyra í heild sinni við Rauða borðið í kvöld.