„Ég verð að viðurkenna það að þó ég hafi verið í verkalýðsbaráttunni í 15, 20 ár og í stjórn lífeyrissjóð í 10 ár, að þá hafði ég aldrei farið í það að skoða þetta, skoða hver verður staðan þegar ég fer á eftirlaun. Staðan er sú að núna er fyrsta kynslóðin, það er ég, er að verða 67 ára í næsta mánuði, sem er að koma inn á full verðtryggðan lífeyri. Það sem við höfum borgað inn á lífeyrissjóð alla tíð frá því við byrjuðum á vinnumarkaðnum um 1980, það er ég að fá verðtryggt til baka, að raunvirði. Hins vegar, fólkið sem hefur verið að koma inn á eftirlaun, sem er kannski ekkert með rosalega mikinn lífeyri. Síðan eru ákveðin takmörk, þú færð ákveðið, upp að 760 þúsund frá Tryggingarstofnun. Þannig að ef þú ert ekki með góðan lífeyri og ert kannski í skuldum og jafnvel á leigumarkaði, þá er þetta ekkert glæsilegt.“
Þetta segir Guðmundur Þ. Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM, í viðtali við Rauða borið sem sýnt verður í kvöld. Hann, ásamt Steingerði Steinarsdóttur, ritstjóra lifdununa.is, mun þar ræða þær áskoranir sem mæta fólki á eftirlaunaaldri. Guðmundur hefur undanfarin ár haldið fyrirlestra þar sem hann markmiðið er að veita ráðgjöf til þeirra sem senn fara á eftirlaun.
„Það er engin formúla fyrir þessu og það er enginn eins. Staða sumra er bara ágæt, meðan hjá öðrum er hún bagaleg. Það sem ég hef lagt áherslu fyrir fólk sem er að nálgast þennan aldur, að fara tímalega, í síðasta lagi 62 ára, að skoða þetta. Að skoða hver staða þeirra er, því hvort sem þú ert illa staddur eða hvernig sem það er, þá verður þú helst gera einhverjar ráðstafanir,“ segir Guðmundur.
Við Rauða borðið í kvöld má sjá og heyra ítarlegt viðtal við þau Guðmund og Steingerði um málefni ellilífeyrisþega.