Þar sem líkur eru á að íslenska þjóðin gangi til kosninga innan nokkurra vikna, hefur ritstjórn Samstöðvarinnar afráðið að efna til beinna sjónvarpsútsendinga alla virka daga fram að kjördegi.
Hópur fólks verður kallaður að umræðuborðinu og reynt að kryfja sem flesta anga stjórnmálanna og svara sputningum sem brenna á vörum almennings. Bein útsending verður klukkan 20 við Rauða borðið mán-fim en á föstudögum verður bein umræða klukkan 16. Annað efni verður svo sýnt síðar í hverjum þætti.
Vefur Samstöðvarinnar, samstodin.is, stendur opinn fyrir skoðunum fólks sem vill birta greinar sem tengjast kosningabaráttunni fram undan. Þá mun ritstjórn Samstöðvarinnar reglulega skrifa fréttir á vefinn um mál sem þjóðin þarf að kynna sér fyrir kjördag.
Samstöðin hefur greint vaxandi áhuga á þjóðmálum og pólitík meðal Íslendinga. Í því skyni að auka þjónustu reið stöðin á vaðið með aukaútsendingu í gærkvöld eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins boðaði upplausn eigin ríkisstjórnar eftir sögulega stuttan tíma sem forsætisráðherra. Boltinn er nú hjá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Með þessu framtaki reynir Samstöðin að efla lýðræðislega þátttöku og upplýsingagjöf í landinu.