„Mér finnst ótrúlega góð stemming og það er einhvers konar umpólun í gangi. Það eru rosa miklar mannabreytingar. Það er óvæntir hlutir að gerast, þetta er ekki fyrirsjáanlegt, heldur þvert á móti. Þetta er alveg sérstaklega spennandi og mér finnst einhver kittlandi stemming í þessu.“
Þetta sagði Jón Gnarr í pallborði við Rauða borðið í gær um komandi kosningar. Þar ræddi Jón, sem nú er frambjóðandi Viðreisnar, um stöðuna ásamt Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi, Vali Gunnarssyni sagnfræði og Frosta Sigurjónssyni, fyrrverandi þingmanni Framsóknar. Ólíkt Jóni þá telur Valur að þetta verði barátta á milli „Sjálfstæðisflokkanna“, líkt og hann orðar það.
„Það er hætt við því að þetta verði barátta Sjálfstæðisflokkanna, sem er mjög erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sjálfan. Framsóknarflokkurinn hefur oft verið einhvers konar Sjálfstæðisflokkur. Vinstri grænir eru orðnir Sjálfstæðisflokkur. Miðflokkurinn er að verða meira og meira Sjálfstæðisflokkur. Samfylkingin er að verða meira og meira Sjálfstæðisflokkur. Eini flokkurinn sem er ekki Sjálfstæðisflokkur er Viðreisn, sem var Sjálfstæðisflokkur. Það er hörð samkeppni um að vera Sjálfstæðisflokkur, þannig að sjálfur flokkurinn veit ekki hvað hann á að gera,“ segir Valur.
Umræðuna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.