Þórður Snær Júlíusson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi frambjóðandi Samfylkingarinnar, segir að aðstæður í´stjórnmálum séu nú slíkar að þær líkist einna helst árinu 1994 í Reykjavík.´Þá tókst að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum og hefur hann varla komið að stjórn borgarinnar síðan. Þórður skrifar á vef sínum:
„Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa stýrt Íslandi, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi, meira og minna allan lýðveldistímann. Flokkarnir hafa búið til kerfi í kringum fyrirgreiðslupólitík og sérhagsmunagæslu. Kosningarnar um síðustu helgi skiluðu niðurstöðu þar sem kjósendur sögðust vilja nýtt upphaf. Þeir vilja hverfa frá valdakerfum helmingaskiptaflokkanna og fá stjórnsýslu sem er þjónustumiðuð með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Tækifærið sem nú er til staðar er svipað því sem var í Reykjavíkurborg fyrir 30 árum og varð til þess að Sjálfstæðisflokknum hefur, meira og minna, verið haldið frá stjórn hennar nær alla tíð síðan.“
Síðar í sama pistli segir Þórður svo um kosningarnar um síðustu mánaðamót: „Og kosningarnar fyrir tæpri viku voru sögulegar fyrir margra sakir. Í fyrsta lagi þá fékk fjórflokkurinn sína verstu sameiginlegu útreið frá upphafi, en einungis 50,25 prósent atkvæða féllu honum í skaut. Það orsakast af því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu nokkru sinni og fór í fyrsta sinn undir 20 prósent múrinn, Framsókn hefur heldur aldrei áður fengið hlutfallslega jafn fá atkvæði og Vinstri græn biðu þannig afhroð að flokkurinn komst ekki einu sinni yfir 2,5 prósent markið sem tryggir flokkum fjármagn úr ríkissjóði. Samanlagt fengu stjórnarflokkarnir þrír 29,5 prósent atkvæða. Þeim, og því sem þeir standa fyrir, var mjög bersýnilega og algjörlega hafnað.“
Hér má lesa pistilinn í heild sinni.