„Við erum vissulega að horfa á bakslag núna hvað varðar ofbeldi gegn konum, síðustu mánuði, kannski ár. Umtalið hefur breyst og hvað má segja um konur og þolendur hefur breyst. Umburðarlindi hefur jafnvel minnkað. Ofbeldi í nánum samböndum hefur alltaf verið til, það hefur alltaf verið grasserandi faraldur. Það sem er sorglegast er að það sé ekki að minnka.“
Þetta segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Líkt og fyrr segir þá er margt sem bendir til þess að um þessar mundir sé bakslag að eiga sér stað í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Linda bendir á að þetta sé að eiga sér stað þrátt fyrir mikla fræðslu um þessi mál.
„Úrræðin eru fleiri. Við erum vissulega oft að sjá konur leita sér aðstoðar fyrr, því þær þekkja úrræðin betur og þekkja merkin. En við erum að sjá að ofbeldið er enn til staðar og nýja kynslóð ungra manna með sama gamla ofbeldið, að sjá ofbeldið taka annan hring. Það er mjög sorglegt. Maður hugsar bara hvaðan er þetta að koma? Því þetta er ekki skortur á upplýsingum,“ segir Linda Dröfn.
Hún mun segja okkur nánar frá stöðunni í baráttunni gegn heimilisofbeldi við Rauða borðið í kvöld.