Brýnt að mál Jóns hafi afleiðingar

Sigursteinn Másson, fjölmiðlamaður og stjórnarmaður í Dýraverndarsambandi Íslandi, DÍS, segir að þó það sé full ástæða til að rannsaka nánar hverjir komu í raun og veru að því að afla gagna um Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá hafi niðurstaðan þó tvímælalaust verið  afhjúpun á spillingu. RÚV greindi frá því í gær að aðgerðin hafi verið skipulögð af fyrirtækinu Black Cube, sem rekið er af fyrrverandi sérsveitar- og leyniþjónustumönnum Mossad, leyniþjónustu Ísraels.

„Mál Jóns eru tvö aðskilin mál og athyglisverð hvort fyrir sig. Annars vegar er það efni málsins þ.e.a.s. afhjúpun á spillingu og hins vegar það hvernig upplýsinganna var aflað. Það er engum blöðum um það að fletta að blaðamenn Heimildarinnar eru í fullum rétti til að birta gögnin sem þeir hafa fengið og sannreynt að séu raunverulega byggð á frásögn sonar Jóns. Sá er ekki bara eitthvað saklaust barn Jóns, eins og látið hefur verið í skína, heldur miðaldra fyrrverandi formaður félags hrefnuveiðimanna og, ásamt með föður sínum, innsti koppur í búri einarðra hvalveiðiáhugamanna. Hann er því ekki bara einhver utanaðkomandi aðili og fjölskyldufórnarlamb heldur trúverðugur,  málsmetandi aðili,“ segir Sigursteinn á Facebook.

Hann bendir á að sonur Jóns hafi í raun staðfest í samtalinu spillingarfléttu Bjarna og Jóns. „Það kemur ekki á óvart að sonur Jóns skuli lýsa hrossakaupum Jóns og Bjarna Ben eftir tap Jóns í Suðvesturkjördæmi. Þjóðin fylgdist með því þegar Jón strunsaði út úr Valhöll og lét ekki ná í sig fyrr en að hann var kynntur til leiks sem einhverskonar fulltrúi Bjarna í Matvælaráðuneytinu sem varð svo að stöðu aðstoðarmanns. Í samtalinu við ísraelska leyniþjónustumanninn, ef hann var þá það sbr. frétt RÚV, lýsir sonurinn því kvitt og klárt að sögunni hafi fylgt að Jón fengi fimm ára hvalveiðileyfi til handa vini sínum Kristjáni Loftssyni. Það leyfi yrði afgreitt fyrir kosningarnar. Á móti sætti Jón sig við fimmta sætið í Kraganum sem er ekki neitt baráttusæti eins hann lýsti í dag heldur er hann einfaldlega þar með út úr pólitík. Það á sonurinn líka að hafa staðfest í samtalinu. Einnig að Jón fengi forstjórastöðuna hjá Hval hf ef hann sæktist eftir því,“ segir Sigursteinn og heldur áfram:

„Þetta er spilling. Ekkert annað en gamaldags spilling á æðstu stöðum og við því verður að bregðast. Þegar Jón segir að hann taki enga ákvörðun um leyfi til hvalveiða þá er það hártogun. Það er athyglisvert sem haft er eftir syninum að vegna fyrri fjölskylduvensla Bjarna Ben við Hval hf þá verði það Þórdis Kolbrún sem fomlega verði sett í það að veita hvalveiðileyfið. Það er engu líkara en við séum stödd á Sikiley.“

Sigursteinn segir aðdraganda þess að þetta varð opinbert þó vissulega ekki til fyrirmyndar. „Hvað með hlut þess aðila sem gabbar son Jóns og fyrrverandi formann hrefnuveiðimanna, tekur hann upp á veitingastað bæði mynd og hljóð? Sú aðgerð er sóðaleg í sjálfu sér. Það er illþolanlegt að svona sé staðið að verki og það hefði ekki gerst nema að umtalsverðir peningar væru í spilinu. Aðgerðin virðist hafa staðið yfir mánuðum saman og það er full ástæða til að rannsaka ofan í kjölin hverjir eru þarna á bak við. Ég vona að það verði gert og upplýst. RÚV segir það vera aðila sem tengdir voru leyniþjónustu Ísraels- Mossad. Það er ein alræmdasta leyniþjónusta heims í þjónustu þess ríkis sem ber ábyrgð á alvarlegustu stríðsglæpum sögunnar allavega frá því í Víetnamstríðinu ef ekki frá því í heimsstyrjöldinni síðari. Það er óviðunandi að slíkir aðilar njósni um íslenska ráðamenn og gildir þá einu hver tilgangurinn kann að vera. Þetta breytir þó ekki því að það er í þágu íslenskra almannahagsmuna að upplýst sé um hvers kyns spillingu af hálfu stjórnvalda og mikilvægt að missa ekki sjónar á því atriði og þar með efni málsins. Upplýsingarnar varða sannarlega almenning í landinu og brýnt að þetta hafi afleyðingar,“ segir Sigursteinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí