„Nú er það þannig að vinstrimenn og þeir sem hafa hagsmuni umhverfisins að leiðarljósi eru með mörg stór framtíðarmál, sem eru kannski ekkert svo auðveld þegar kemur að kosningum, til að fá fólk til að láta það ráða afstöðu sinni. Þannig að sumu leyti er leikurinn léttari fyrir þá sem láta vaða á súðum og byggja á skammtíma sjónarmiðum og patent-lausnum. Það er innihaldslausa pólitíkin, lýðskrumið og yfirboðin, sem á sorglega auðvelt með að safna um sig fylgi.“
Svo svarar Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra og formaður VG, spurður um hvers vegna fylgið leyti ekki til vinstri þrátt fyrir að hægrimennska, eða ný-frjálshyggja, hafi ekki átt sjö dagana sæla á þessari öld. Steingrímur verður gestur Rauða borðsins í kvöld og ræðir í ítarlegu viðtali um stöðu vinstrihyggju, en einnig stöðu síns gamla flokks, sem er í alvarlegri hættu við að detta algjörlega út af þingi. Steingrímur segir að það sé staðreynd að við lifum á tímum hinna popúlísku stjórnmála.
„Hugmyndafræði gengur alltaf í ákveðnum bylgjum, ef eitthvað kemst í tísku, verður vinsælt og svo víkur það. Til dæmis umhverfismálin á Íslandi eru gott dæmi um þetta. Þegar við verðum til, árið 1999, þá fáum við beint í fangið Kárahnjúka-slaginn og öll þau ósköp. Fjórum árum síðar, í kosningum 2003, þá eigum við erfitt uppdráttar. Það er sótt að okkur úr öllum áttum af því að umhverfismálin voru ekki „in“, eins og menn segja á vondu máli. Þau voru ekki efst á baugi,“ segir Steingrímur.
Steingrímur mun ræða þetta og fleira við Rauða borðið í kvöld.