„Við Rauða borðið á Samstöðinni í gærkveldi minntist ég á atriði sem almennt er ekki í umræðunni, þegar verðið er að tala um að virkja allt í botn og helst í gær. Þetta snýst um hvaðan eigum við að fá orkuna sem standa á undir hagvexti á árunum 2040-50, 2050-60, 2060-70, o.s.frv., ef búði verður að virkja allt sem hægt er að virkja fyrir árið 2035.“
Þetta skrifar Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og samfélagsrýnir, á Facebook en líkt og hann kemur inn á þá var hann gestur Rauða borðsins í gær. Það má innlegg má sjá hér neðst. En Marinó heldur áfram og skrifar:
„Alls konar aðilar eru með uppi hugmyndir um virkjanir, sem helst á að taka í notkun fyrir árslok, vegna þess hve mikil eftirspurn er eftir raforku. Fyrir utan virkjanirnar er búið að teikna upp eða verið er með í gangi framkvæmdir í atvinnusköpun í landi, sem skortir svo mikið vinnuafl, að nauðsynlegt hefur verið að flytja það inn.“
Hann segir ljóst að ef atvinnuuppbygging er ekki í takt við fólksfjölgun þá þurfi að flytja inn vinnuafl. „Atvinnuuppbygging verður að vera í takti við sjálfbæra stækkun vinnumarkaðarins, þó svo að hugmyndirnar séu frábærar. Hún verður líka að fá stuðning frá uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, því vinnuaflið þarf að búa einhvers staðar. Staðan í dag er sú, að innflytjendur hafa að miklu leyti fyllt í störfin sem hafa myndast undanfarin 4 ár og of hröð atvinnuuppbygging mun bara auka á þörfina á innfluttu vinnuafli,“ segir Marinó.
Hann segir enn fremur að það sé verulega skammsýnt að ætla að virkja núna allt sem hægt er að virkja. „Það er að sjálfsögðu stjórnvalda að móta atvinnustefnu, stefnu í orkumálum, virkjanastefnu og húsnæðisstefnu. Síðan þarf að móta aðgerðaráætlun til að hrinda þessum stefnum í framkvæmd. Ég hefði haldið, að grunnurinn í öllum þessum stefnum sé að svara spurningunni: Á hverju ætlum við Íslendingar að byggja hagvöxt okkar næstu 40-50 árin? Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja á næstu 10 árum, þá munu orkuauðlindir landsins ekki styðja við hagvöxt nema í stuttan tíma. Hvað tekur þá við? Gefum okkur að landsmenn verði 500.000 eftir 25 ár. Á hverju á viðbótin frá 2035-2050 að lifa, ef búið er að fullnýta alla virkjunarkosti, drita niður sjókvíum í alla firði, flytja heilu fjöllin úr landi og allt þetta fyrir 2035,“ segir Marinó og heldur áfram:
„Orkustofnun hefur verið sá aðili innan stjórnsýslunnar, sem líklega mest hefur velt fyrir sér þessari framtíðarsýn. Hún hefur gert raforkuspár langt fram í tímann og út frá þeim spám hefur mátt sjá hvenær væri þörf á meiti raforkuframleiðslu. Hún hefur líka gert spár um þörf á heitu vatni og veitir ekki af miðað við fólksfjölgun síðustu ára. En hvar standa stjórnvöld, þegar að þessu kemur? Standa einstök sveitarfélög undir þeirri atvinnuuppbyggingu sem á sér stað hjá þeim? Getur verið að mikil atvinnuuppbygging á einu svæði sé að hamla atvinnuuppbyggingu á öðru svæði? Bera innviðir landsins þetta og þar á ég við heilbrigðiskerfi, samgöngukerfið, menntakerfið? Fá ríki og sveitarfélög eðlilegar tekjur frá þessum fyrirtækjum til að standa undir sínum útgjöld vegna innviðauppbyggingar og -rekstrar? Eða verða það hinir almennu skattgreiðendur sem borga brúsann?“
Hann segir að lokum að þessi mál séu þau mikilvægustu sem komandi ríkisstjórn mun þurfa að taka á við. „Hagvaxtarstefna, atvinnustefna og byggðastefna til framtíðar eru einhver mikilvægustu mál næstu ríkisstjórnar. Að sjálfsögðu þarf að taka á bráðavandanum, sem vextir, verðtryggðing, verðbólga, óstöðugleiki í hagkerfinu, húsnæðismál og heilbrigðismál, en sé ekki strax farið að skipuleggja til framtíðar, þá verða þessi málefni bráðavandi næstu kosninga eða þar næstu. Sagt er að sígandi lukka sé best. Þ.e. að byggja hægt upp án öfga. Að vera með traustar undirstöðu, sem hægt er að byggja á. Ríkisstjórn á hverjum tíma ber ábyrgð á þessu. Atvinnufrelsi innifelur ekki réttinn til að setja allt á hliðina.“