„Það er erfitt að afgreiða þetta mál sem einhverja sjóræningja-aðgerð, eins og er gert í fjölmiðlum. Þar sem aðalmálið er umgjörðin. Ég ætla ekki að mæla þessu fyrirtæki bót að neinum hætti en það er dregin upp mjög svört mynd af því og öllu í kringum þetta. Á sama tíma er gert lítið úr því sem fram kemur í þessum upptökum.“
Þetta sagði Jón Þórisson, fyrrverandi aðstoðarmaður Evu Joly, við Rauða borðið í kvöld um mál Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi ráðherra. Jón Þórisson ræddi spillingu á Íslandi og hvað væri til ráða til að draga úr henni ásamt þremur öðrum við Rauða borðið í kvöld: þeim Guðrúnu Johnsen, hagfræðingi og deildarforseta Viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, Birni Þorlákssyni, höfundi og blaðamanni og Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastýru Kvenréttindafélags Íslands. Þá umræðu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
Jón bendir á að spilling sé ekki einungis lélegum stjórnmálamönnum að kenna, því margir angar samfélagsins séu í raun meðsekir, þó það sé ekki alltaf meðvituð ákvörðun. Hann segir að hvernig sumir fjölmiðlar hafa fjallað um mál Jóns vera gott dæmi um það.
„Þegar Jón Gunnarsson kemur á sokkaleistunum í viðtal á RÚV, heima í stofu hjá sér, og ávarpar fréttamann með nafni, oftar en einu sinni í viðtalinu. Allt tekið saman þá er þetta til þess gert að gera þetta lítið og krúttlegt. Það er bara hann og sonurinn sem eru í stofnunni. RÚV fjallar svo ekkert um málið sjált, sagði voða lítið um sjálfa afhjúpunina. Drógu frekar upp þessa mynd af þessu fyrirtæki. Svo er hægt að bera þetta saman við mál Þórðar Snæs, en það er ljóst að það „réttlætið“ fer misblíðum höndum um menn,“ sagði Jón Þórisson.