Ljóst er að skiptar skoðanir eru meðal Pírata um hvort flokkurinn eigi sér einhverja framtíð, Meðan sumir, líkt og Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi, telja að flokkurinn hafi fengið náðarhögg þá eru aðrir líkt og Dóra Björt Guðjónsdóttir, sem átti ekki erindi sem erfiði um helgina, telja það hafa verið rothögg.
Hún telur að Pírötum hafi verið refsað fyrir að tala máli náttúrunnar. „Í þessum kosningum var náttúrunni hafnað með þeim flokkum sem settu erindi hennar á oddinn. Ég biðla til félaga minna í Viðreisn og Samfylkingu að vera kyndilberar náttúrunnar við sáttmálagerð því þörfin er brýn og framtíðarkynslóðir þurfa alvöru málsvara inni á þingi. Áherslan á faglega, gagnsæja, lýðræðislega og upplýsta ákvarðanatöku er róttæk pólitík á Íslandi. Í samfélagi frændhyglinnar þar sem flokkshestar, vinir og vandamenn fá stöður og gæðum er of oft útdeilt þvert á sanngirni eða réttlæti. Í samfélagi þar sem ófaglegheit eru normaliseruð,“ segir Dóra Björt á Facebook en líkt og hún vísar til þá eru Píratar hluti af meirihlutanum í Reykjavík. Hún segir svo að lokum:
„Við Píratar misstum mikilvægar raddir af þingi og það er sárt. En loftslags-, lýðræðis-, og umbótamálin lifa enn góðu lífi í vinnu sveitarstjórnarfulltrúa og með forystu okkar í Reykjavík. Hugsjón sem þörf er á finnur leiðir, eins og vatnið sem flæðir. Eins og Fönix úr ösku rís, rís hún á ný.“