Ekki er nóg með að erlend fyrirtæki svo sem Google og Facebook gleypi æ meira af íslensku auglýsingafé, heldur lamar séríslenskur andbyr einkarekna fjölmiðla. Andbyrinn kallast Ríkisútvarpið.
Þessu heldur Orri Hauksson, fyrrum forstjóri Símans, fram í ítarlegu viðtali sem Viðskiptablaðið greinir frá.
Ójöfn samkeppnisstaða gagnvart Ríkisútvarpinu er ólíðandi að sögn Orra. Hann segir mjög óalgengt í nágrannalöndum okkar „að ríkismiðill sem fær verulegar fjárhæðir beint frá skattgreiðendum sé einnig mjög fyrirferðarmikill á auglýsingamarkaði“.
Gróflega áætlað fær RÚV um 6 milljarða í ár vegna nauðungaráskriftargjalda landsmanna sem ekki er hægt að segja upp, hvað sem landsmönnum finnst um skort á gæðum. Að auki fær Rúv 2-2,5 milljarða í auglýsingatekjur.
„Þessi skekkja hefur lengi verið rædd en af einhverri ástæðu hefur stjórnmálafólk ekki treyst sér til að taka á henni. Augljóst fyrsta skref til að rétta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla í samkeppni við ríkið væri að afmarka mjög auglýsingasölu Ríkisútvarpsins eða láta alveg af henni,“ segir Orri.
Á sama tíma og Rúv fær 8-9 milljarða og langmest er opinbert fé, hefur dagskrárgerð orðið metnaðarlausari dag frá degi, auk þess sem aðhaldshlutverk fréttastofunnar er ekki svipur hjá sjón. Þannig verður ekki séð að allir þessir gríðarlega bæti frammistöðu Rúv, nema síður sé. Hefur þeim röddum stórfjölgað undanfarið sem segja að gera þurfi holskurð á almannaútvarpinu og fjarlægja meinin innanhúss, vanhæfa og værukæra stjórnendur.
Samstöðin, sem nær til 40.000-50.000 Íslendinga í viku hverri, fékk 6 milljónir króna frá ríkinu í fjölmiðlastyrk á síðasta ári. Það er um 1.000 sinnum minni opinber stuðningur en Rúv fékk!