Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður hefur hvergi sparað sig er kemur að gagnrýni á Flokk fólksins undanfarið. Hann hefur fordæmt flokkinn ítrekað vegna styrkjamálsins. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, rifjar upp að Jón Steinar hafi eitt sinn sjálfur verið lögmaður flokksins. Sé í því ljósi erfitt að skilja hvað liggi undir skrifum hæstaréttarlögmannsins fyrrverandi sem sjálfur stundi lögbrot með því að grafa undan stjórnvöldum með röngum sakargiftum.
Sigurjón, sem er oddviti Flokks fólksins í NA-kjördæmi, skrifar færslu í dag á facebook þar sem hann upplýsir að Jóni Steinari fari ekki vel að predika um siðferði þar sem Jón Steinar fái sjálfur um 30 milljónir á ári hverju sem fyrrverandi hæstaréttardómari. Hann muni þiggja slík laun til æviloka án þess að leggja fram nokkurt vinnuframlag.
„En mér finnst sanngjarnt sem skattborgara að gera þá kröfu til fyrrverandi Hæstaréttardómara að þeir séu ekki að ástunda lögbrot og grafa undan stjórnvöldum með röngum sakargiftum,“ skrifar Sigurjón.
Hann bætir við að sú heift sem hafi skinið úr skrifum Jóns Steinars komi á óvart þar sem Jón Steinar hafi sjálfur verið lögmaður Flokks fólksins þegar flokkurinn fór í mál til þess að leiðrétta kjör öryrkja/eldri borgara.
„Ekki veit ég hvort síðareglur hæstaréttardómara né lögmanna ná utan um það þegar viðkomandi ræðst með óbilgjörnum hætti á fyrrum skjólstæðing sinn. Eflaust ná ekki neinar siðareglur yfir svo makalaust athæfi, þar sem fá fordæmi eru fyrir svo dæmalausri framkomu.
Nú þegar hann er genginn til liðs við dómstól götunnar til þess að verja sérhagsmuni nokkurra auðmanna þá ætti maðurinn að sjá sóma sinn í því að afsala sér ríkulegum eftirlaunun frá almenningi a.m.k. á meðan hann er að störfum á götunni.“