En Bjarni er ansi seigur nagli samt, sem ekki er létt að beygja, enda pólitík honum í blóð borin.
Svo er það nú þannig að þótt maður tapi einni orrustu er ekkert sem segir að maður geti ekki unnið þá næstu.
Reykjavíkurborg hefur verið stjórnað allt of lengi af einhvers konar vinstri-miðju-hrærigraut, fólki sem er mjög svo mislagðar hendur, enda rekstur borgarinnar eftir því slæmur og má segja að hún sé rekin með lántökum til að forðast greiðsluþrot.
Nú vil ég benda á að heppilegt væri fyrir land og þjóð að Sjálfstæðisflokkurinn næði aftur borginni á sitt vald og kæmi þar með rekstri hennar í þokkalegt stand, sem verður ærið verkefni þegar litið er á stöðu borgarinnar í dag.
Þá orrustu tel ég vel mögulegt að Bjarni B. gæti unnið með glæsibrag.
Það einhvern veginn stendur bara vel skrifað í rúnirnar að Bjarni Benediktsson verði næsti borgarstjóri Reykjavíkur.
Málið er það að það fer saman vel rekin Reykjavíkurborg og velmegun úti á landsbyggðinni. Það helst í hendur. Hagkerfi Reykjavíkurborgar er það stórt á landsvísu að vissulega hefur það áhrif á landsbyggðina ef vel gengur í borginni, það skyldi maður nú ætla.
Hvílum núverandi minnihluta borgarinnar og biðjum Bjarna að setjast þar á stall. Minnihlutinn, þótt skipaður sé ágætu fólki, hefur brugðist að mörgu leyti.
Borgina vantar sterkan foringja, hann finnum við í Bjarna Benediktssyni.
Björgum borginni undan vinstra miðjumoðinu.
Jóhann L. Helgason eldri borgari.