Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson ber af sér sakir í nýrri færslu á samfélagsmiðlum vegna umfjöllunar sem hann kallar lygar Viðskiptablaðsins.
„Á að leiðrétta lygar og falsfréttir um sjálfan sig þegar þær birtast í „alvöru“ fjölmiðlum? Ég hef sjaldan gert það, en nú eru nýir tímar,“ segir Ólafur.
Viðskiptablaðið hefur sagt að Ólafur sé „í nánasta ráðgjafaráði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra“ að því er fram kemur í orðum Ólafs.
„Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei gefið henni ráð, enda hefur hún aldrei falast eftir mínum ráðum. Við höfum reyndar skipst á fáeinum kurteisisorðum – í eitt eða tvö skipti. Stjórnaði svo einu sinni fundi í Hörpu þar sem Kristrún, Þórdís Kolbrún, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir voru í pallborði,“ skrifar Ólafur.
Viðskiptablaðið segir líka að Ólafur Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson séu saman í þessu nánasta ráðgjafaráði Kristrúnar.
„Það er hrein lygi,“ segir Ólafur.
Hann rifjar svo upp að undanfarin ár hafi Morgunblaðið iðulega fullyrt að hann sé Samfylkingarmaður.
„Það er lygi. Ég er ekki flokksbundinn í Samfylkingunni og hef aldrei verið. Hef reyndar ekki verið flokksbundinn í neinum flokki í áratugi. Og ekki látið í ljós stuðning við neinn flokk.“
Hann bætir við: „Ég hef rannsakað stjórnmál í áratugi – og veitt ókeypis alþýðufræðslu i fjölmiðlum. Reynt að vera óhlutdrægur. Kvarta ekki undan málefnalegri gagnrýni á mín sjónarmið. En sit ekki lengur þegjandi undir upplognum merkimiðum falsfréttamiðla, sem augljóslega reyna að draga úr trúverðugleika mínum.“