Nú er eins gott að nýja ríkisstjórnin taki loks á þeim brýnu verkefnum sem verður að sinna, og það sem fyrst. Þetta var meira þrotabúið sem valdaflokkarnir skiluðu af sér.
„Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins er farið yfir ástand innviða í landinu og horfur til framtíðar,“ segir í leiðara Moggans. Spennum nú beltin því Mogginn setur í fjórhjóladrifið og keyrir yfir fyrri valdahafa landsins:
„Innviðirnir eru forsenda þess að samfélagið virki. Eftir því sem þeir eru traustari og skilvirkari er auðveldara að láta hlutina ganga snurðulaust upp. Það er hins vegar alvarlegra þegar vanræksla innviða eða skortur á uppbyggingu verður til að það myndist flöskuhálsar, sem standa atvinnulífinu fyrir þrifum.
Í skýrslunni kemur fram að viðhaldi vega og fráveitukerfa er verulega áfátt. Ástand vega er sérlega alvarlegt og virðist einu gilda hvort viðhald þeirra sé á ábyrgð Vegagerðar eða sveitarfélaga.
Einnig kemur fram að viðhald sé í betri skorðum þegar það er á ábyrgð ríkisrekinna félaga. Isavia og Landsvirkjun séu til marks um það. Virkjunum og veitumannvirkjum sé haldið við jafnt og þétt þannig að viðhaldsskuld sé engin. Öðru máli gegni hins vegar um aukningu afkasta til að mæta vaxandi þörf.
Kerfið er nær fullnýtt nú þegar þannig að lítið má út af bera og svigrúm til að mæta aukinni þörf, hvort sem það er vegna íbúafjölgunar eða vaxtar í atvinnulífinu, er ekkert, hvað þá falli virkjun út vegna náttúruhamfara. Bent er á að leyfisveitingakerfið sé allt of svifaseint þegar kemur að nýjum kostum og því stefni í óefni.
Í raun má segja að fátt nýtt komi fram í skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði landsins, en í henni kemur fram heildarmynd, sem sýnir að það er mikið verk að vinna. Það getur verið dýrt að halda innviðunum við og efla þá samfara því að íbúum fjölgar og umsvif vaxa, en það er enn dýrara að láta reka á reiðanum.“
Nú er eins gott að nýja ríkisstjórnin taki loks á þeim brýnu verkefnum sem verður að sinna, og það sem fyrst. Þetta var meira þrotabúið sem valdaflokkarnir skiluðu af sér.