Rúv tapi samkeppninni við Samstöðina

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur segir að Ríkisútvarpið bregðist skyldum sínum. Sé nú svo komið að Samstöðin beri sjálft Ríkisútvarpið ofurliði er kemur að því að endurvarpa margbreytilegum skoðunum og bjóða öllum röddum að umræðuborðinu.

Ríkisútvarpið fær um 6.000 milljónir króna úr vasa almennings. Að auki fær Rúv 2-3 milljarða í auglýsingar. Hefur verið fjallað um að auglýsingasafnarar Rúv fái bónusgreiðslur eftir því sem þeir sækja harðar fram og ná fleiri auglýsingum. Ákafinn að safna þeim var svo mikill að í viðureign Íslands gegn Króatíu gafst varla nokkur tími til að sýna áhorfendum hvað sérfræðingar hefðu að segja í leikhléi vegna auglýsingaskriðu. Er nú svo komið að auglýsingastofur halda fram að Rúv hafi ryksugað upp allt fé sem ella hefði dreifst til margra fjölmiðla vegna HM í handbolta.

Geta má þess að fjölmiðlastyrkur hins opinbera til Samstöðvarinnar fyrir allt þetta ár er kr. sex milljónir. Rúv fær þúsund sinnum meira fé en Samstöðin frá hinu opinbera. Auk allra milljarðanna sem stofnunin hausaveiðir á grunni forgjafarinnar sem Rúv nýtur og bitnar með þunga á einkaframtakinu og hefur leitt til gjaldþrots einkarekinna miðla og má rifja upp ummæli forráðamanna Fréttablaðsins í því samhengi þegar sá þýðingarmikli fjölmiðill fór á hausinn vegna samkeppni við Rúv, að sögn forstjóra og ritstjóra.

Kristín Helga er því ekki ein á báti í gagnrýni sinni á Rúv, þótt enginn efist um að sitthvað sé enn vel gert í Efstaleitinu. Gera þarf meiri kröfur til starfsmanna almannaútvarpsins að mati höfundar Fíusólar:

„Nú er svo komið að eini rafræni miðillinn sem rúmar fjölradda kór þjóðarinnar og býður öllum reglulega til samtals, hleypir öllum að borðinu til að leggja inn mismunandi mikilvæg sjónarmið, er Samstöðin,“ segir Kristín Helga í færslu sinni á facebook. „Sorglegt að RÚV skuli ekki einu sinni vera samkeppnishæft við þá litlu góðu stöð,“ bætir hún við.

Kristín Helga segir óverjandi að rúvarar hafi eftir kosningar eins og gleymt að fjöldi fólks utan þingflokka sem náðu inn mönnum hafi skoðanir.

„Ég ætlaði nú bara að anda í fjallið, vona að þetta lagaðist, vona að RÚV áttaði sig á hlutverki sínu- að vera kyndilberi hinna fjölmörgu radda samfélagsins – en þetta er orðið svo asnalegt að einhver þarf að hnippa í mannskapinn þarna uppi í Efstaleiti. Rúv á að vera samtalstorg allra landsmanna en ekki allra alþingismanna, þingflokka og stjórnmálaflokka. En stjórnmálaumræðan við hringborðin þar hefur umpólast frá niðurstöðum kosninga í vetur. Kannski er þetta bara í samræmi við hina alþjóðlegu pólitísku hliðrun, mögulega ritstjórnarstemmning, hvað veit ég. En boðsgestir RÚV spegla þingheiminn fremur en almenning í landinu.“

Og rithöfundurinn bætir við:

„Og nú vísa ég til þess að tíu prósent þjóðarinnar misstu fulltrúa sína af þingi. Mikilvægustu málaflokkar samtímans á veraldarvísu misstu fulltrúa á þingi. Náttúruverndin missti fulltrúa, talsmenn róttækra aðgerða í umhverfis og loftslagsmálum misstu alla fulltrúa af þingi og vinstrið, sósíalisminn eða róttæk félagshyggja missti allt sitt fólk af þingi. Þetta voru atkvæði tíu prósenta þjóðarinnar, atkvæði 22 þúsund íslendinga með sterka sýn á samfélagið og heiminn. Það er nánast búið að þurrka þessa rödd út af tússtöflunni á ritstjórnarfundum RÚV allra þingmanna og stjórnarandstaðan hefur samúðarfullan drottningarstatus. Utanþingsrödd þjóðarinnar hafði þó stærra fylgi samanlagt en Framsóknarflokkurinn og nær svipað og Miðflokkurinn. En dónakallar hafa samt stækkað dagskrárvald á Rúv og mala næstu fjögur ár í silfruðu kastljósi með tilheyrandi sting í sólarplexusi fyrir fjölmarga.“

Víst er að margir landsmenn taka undir með rithöfundinum um samúðina gagnvart valdaflokkunum tveimur og fólki valdaflokkanna að loknum kosningum. En Kristín Helga bendir einnig á að á tímunum sem við lifum ætti RÚV að vera með loftslagssérfræðinga að störfum, sérstaka umhverfisfréttamenn sem tíðkist víða á siðmenntuðum miðlum erlendis.

Eftir standa þau orð sem við starfsmenn Samstöðvarinnar þökkum fyrir í von um að æ fleiri Íslendingar sjái sér fært að styrkja Samstöðina með því að gerast áskrifendur fyrir mjög hóflegt gjald.

„Nú er svo komið að eini rafræni miðillinn sem rúmar fjölradda kór þjóðarinnar og býður öllum reglulega til samtals, hleypir öllum að borðinu til að leggja inn mismunandi mikilvæg sjónarmið, er Samstöðin. Sorglegt að RÚV skuli ekki einu sinni vera samkeppnishæft við þá litlu góðu stöð.“

Sjá hvernig fólk getur gerst áskrifendur Samstöðvarinnar hér:

https://askrift.samstodin.is

https://askrift.samstodin.is/askrift

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí