Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, og Einar Þorsteinsson borgarstjóri komu sér saman um að baka drulluköku sem enginn hefur lyst á. Einar hefur læst að sér og í hann hafa fjölmiðlar ekki náð. Nema hann sé upptekinn við að mynda nýjan meirihluta um sinn eigin rass.
Sigurður Ingi kaldrotaður í þingkosningunum í nóvember. Hann hefur náð að komast á hnén og hafði þetta að segja við Vísi:
„Einar var kosinn og okkar flokkur árið 2022 til að gera breytingar. Allar þær breytingar sem hann hefur viljað gera þá hefur hann verið í mótbyr innan meirihlutans. Það eru hlutir eins og húsnæðisuppbygging, hvort sem er upp í Úlfarsárdal eða Geldinganesi. Það eru hlutir eins og að ganga lengra í að ná fram betri fjármálum borgarinnar. Það eru bílastæðamálin og leikskólamálin þar sem Einar hefur verið tilbúinn að horfa á nýjar lausnir eins og vinnustaðaskóla og fleira. Allt þetta hefur núverandi meirihluti ekki verið tilbúinn til.
Svo er það sem við höfum aðallega séð á síðustu vikum varðandi Reykjavíkurflugvöll. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar borgin framlengdi aðalskipulagið bara til 2032 þegar það er augljóst er að það tekur 15 til 20 ár að byggja nýjan flugvöll og þar af leiðandi hefði átt að framlengja til 2040. Ég hef því mikinn skilning á þeirri niðurstöðu sem hefur orðið í dag.“
Af þessum orðum að dæma hefur Einar þá líklega þurft að þola andstreymi þær fáu vikur sem hann hefur verið borgarstjóri.
Nú er það Sigurðar Inga og Einars að bjóða öðrum að borðinu og smakka á drullukökunni.