Óhætt er að segja að Egill Helgason, sem stundum hefur verið kallaður umræðustjóri Íslands, bauni á Framsóknarflokkinn og Moggann í færslu á facebook.
Egill deilir frétt Moggans um að börn dúsi í fangelsi hér á landi á meðan ríkisstjórnin haldi að sér höndum í meðferðarmálum. Með færslunni fylgja myndir af Ingibjörgu Isaksen, þingmanni Framsóknarflokksins og Ástu Lóu Þórsdóttur barnamálaráðherra. Egill telur augljóslega að ekki sé við núverandi stjórnvöld að sakast heldur fyrri ríkisstjórn og skrifar eftirfarandi:

„Stundum þurfa fjölmiðlar að stunda það sem heitir staðreyndatékk. Þarna er málaflokkur sem var skilinn eftir í rjúkandi rúst af síðustu ríkisstjórn og sérstaklega ráðherra Framsóknarflokks – gleymist vart þegar ráðherra opnaði óstarfhæft meðferðarheimili rétt fyrir kosningar. En þingmenn Framsóknar eru þegar byrjaðir að atast í ríkisstjórn sem hefur setið í þrjá mánuði vegna þessara mála. Við þurfum satt að segja betri pólitík en þetta,“ skrifar Egill Helgason.
Eigill segir svo síðar í athugasemd að það ríki ófremdarástand í fjölmiðlun á Íslandi og slæst þar í för með álitsgjöfum Samstöðvarinnar sem hafa rætt þann vanda flesta mánudaga frá áramótum undir sérstökum lið um fjölmiðla á dagskrá stöðvarinnar. Hefur stjórnunarvandi fréttastofu Rúv, vinnustaðar Egils, og skortur á greinandi fréttamennsku hjá fréttastofu Rúv frá degi til dags verið þar meðal annars til umræðu.