Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst, lýsir ánægju með herta stefnu utanríkisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í öryggis- og varnarmálum Íslands.
Í Mogganum í dag hrósar Bjarni Már nýrri stefnu Þorgerðar Katrínar, hugmyndum um samþættingarmiðstöð öryggis- og varnarmála, búnað til að verjast drónum og eftirlitskafbát í eigu Íslendinga. Bjarni Már hefur mikinn áhuga á að stofnaður verði íslenskur her.
Sérstaklega hrósar prófessorinn því ef framleiðsla hergagna í varnar- og öryggismálum okkar herlausu og hlutlausu smáþjóðar eigi sér stað hérlendis. Hann tengir sterkan hátækniiðnað í varnarmálum við möguleika í háskólastarfi á Íslandi.
Óhætt er að segja að umræða sem þessi hefði verið talin óhugsandi bara fyrir örfáum mánuðum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði á Bylgjunni í morgun að gjörbreytt staða væri uppi í öryggis- og varnarmálum Íslands og hefði umræða um varnir okkar setið á hakanum hjá fyrri ríkisstjórnum vegna ósættis um NATO.