„Hvaða hagsmunir almennings kröfðust þess að frétt um einkalíf ráðherra fyrir 35 árum væri sögð á þennan hátt og látið líta út fyrir að um gróft lögbrot væri að ræða sem fangelsisrefsing lægi við?“
Þannig spyr Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður, fyrrverandi fréttamaður á Rúv og gefur lítið fyrir afsakanir fréttastjóra Rúv sem skrifaði grein í dag sínum vinnustað til varnar í svokölluðu Ástu Lóu máli. Fréttastjóri Rúv telur það ógna lýðræðinu hve mikil gagnrýni hefur orðið á fréttaflutning Rúv.
„Hvað gengur fréttastofunni til að gera sig að dómara i einkalífi konu á þennan hátt og láta liggja að því á villandi hátt að hún sé lögbrjótur?“ Spyr Þóra Kristín.

„Árásir sumra stjórnmálamanna og skipulögð dreifing falsfrétta hafa miðað að því að grafa undan trausti almennings á hefðbundnum fjölmiðlum og í mörgum tilvikum hefur það tekist,“ sagði Heiðar Örn fréttastjóri Rúv. Það er margt til í því en á bara ekki við um þetta mál að sögn hinnar þaulreyndu fréttakonu, Þóru Kristínar:
„Þetta er miklu frekar falsfrétt sem er dreift af pólitískum andstæðingum til að ófrægja konu í valdastöðu. Það að fréttamiðlar láti nota sig í slíkum tilgangi er mjög sorglegt en þó ekki svo sorglegt að það sé endilega gott að setjast niður og gráta með þeim. Fréttastofan fór í þessu tilfelli illa með vald sitt sem felst í því að setja mál á dagskrá í opinberri umræðu. Það er mjög miður, Ég starfaði við fjölmiðla í nær 30 ár og þar á meðal RUV. Ég lít ekki á mig sem óvin fjölmiðla þótt ég ætli ekki að kvaka með þessum meðvirkniskór í þessu máli,“ segir Þóra Kristín meðal annars í færslu á facebook.