Arnar Þór Jónsson, fyrrum héraðsdómari og frambjóðandi, líkir Ríkisútvarpinu við meinvarp. Hann segir að fámennur hópur starfsmanna fari fram með hroka.
Þetta kemur fram í færslu á facebook.
„Rúv er meinvarp í þjóðarlíkamanum. Ef staðfest verður að starfsmenn þar hafi átt þátt í símhlerun verður verður að loka stofnuninni því engin þjóð verður krafin um að fjármagna ríkisstofnun sem er ógnvaldur við fólkið í landinu,“ skrifar Arnar Þór, að líkindum með vísan til órökstuddra ummæla fólks á vegum Samherja.
„RÚV hefur árum saman verið í herkví tiltölulega fámenns hóps starfsmanna þar sem telja sig ekki bara hafa höndlað sannleikann, heldur telja sig bera einhvers konar heilaga skyldu til að boða þann sannleika dag og nótt, án auðmýktar, án hógværðar og án þess að leiðrétta sig þegar í ljós kemur að þau hafi farið með rangt mál.“
Arnar Þór hrósar hins vegar Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins, sem er í hópi þingmanna sem hafa rætt Rúv með gagnrýnum hætti undanfarið vegna forgjafar á markaði á sama tíma og einkareknir miðlar lepja dauðann úr skel.